Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Flestir þeir sem þjást af þunglyndi fá ekki viðeigandi meðferð, annað hvort vegna þess að þeir leita sér ekki hjálpar eða vegna þess að vandamálið er ekki meðhöndlað með réttum hætti af þeim sem leitað er til.
Andleg heilsurækt Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 0
LélegGóð 

Við sækjumst öll eftir því að líða vel, að upplifa einhvers konar hamingju. Að við séum sátt við okkur sjálf og lífið, eigum góða andlega heilsu. En hvað býr til góða andlega heilsu og hvernig byggjum við hana upp ef bæta má? Hvernig ræktum við sálina og vinnum að því að vera hamingjusöm þó sitthvað gangi á?

Ef við ætlum í líkamlegt heilsuátak þá er oftast eitthvað við okkar líkamlegu heilsu sem vekur löngun til að bæta og byggt á því breytum við hegðun okkar til betri vegar, til betri heilsu. Fyrir suma snýst það t.d. um betri svefnvenjur, aðra um kannski meiri hreyfingu og enn aðra um breytt mataræði eða að losa sig við vín eða reyk. Byggt á því sem kveikti löngun til breytinga er okkur samt oft leiðin nokkuð ljós, þó hún sé ekkert endilega fljótfarin eða auðveld í framkvæmd.

En hvað ef ekki er um líkamlega heilsu að ræða? Hvað er það, ef eitthvað, sem vekur hjá þér löngun til að bæta andlega heilsu? Og hefur þú velt því fyrir þér hvaða breytingar það kallar á svo hægt sé að snúa til betri vegar, til betri heilsu? Fyrir meiri hamingju. Fyrir sáttina við okkur sjálf og lífið sem er.

Líkt og með líkamlega heilsu eru mismunandi leiðir færar eftir eðli þess sem bæta má. Fyrir suma snýst það um betri svefnvenjur, meiri hreyfingu, bætta næringu eða það að losa sig við vín og reyk. Fyrir aðra t.d. að gefa upp niðurbrjótandi samband, að byggja upp skaddað samband, að horfast í augu við ótta sinn, stunda söng, horfa til fjalla eða rækta tengsl við sig og annað fólk. Ekki endilega fljótgert eða auðvelt í framkvæmd, en ólíkt líkamlegri heilsu þá stöndum við oft ráðalausari þegar kemur að því að finna leið, byggða á því sem kveikti löngun til að öðlast betri heilsu. Leiðin virðist okkur ekki eins ljós og við áttum okkur ekki alltaf á hvaða breytingar við getum gert sem leiða til betri heilsu.

Ein af skýringunum er kannski að við óttumst það sem við þurfum að gera. Önnur er að eins gjörn og við oft erum til að horfa á líkamlegt ástand okkar gagnrýnum augum og sjá endalausa þörf fyrir betrun þá berjumst við oft gegn því að sjá og viðurkenna hvar við erum stödd andlega. Einhverra hluta vegna virðist það vera meira feimnismál, að við metum það sem meira tap, að þurfa að fara í andlega heilsurækt en líkamlega. Eins og það segi eitthvað alvarlegra um okkur að þurfa að minnka kvíða en að þurfa að minnka fitumagn.

Við erum það sem við erum, af líkama og sál. Eitt það mikilvægasta fyrir heilsu er að vera tilbúinn til að sjá það sem er til þess að geta gert það sem þarf. Að vera tengd okkur sjálfum, geta lesið í líkama og sál og byggt áætlanir um breytingar og aðgerðir til bættrar heilsu.

Ef þú virkilega horfir og sérð það sem er. Er eitthvað sem þig langar að bæta? Hvernig getur þú ræktað þína sál? Ég hvet þig til að taka því af virðingu sem er og stíga svo af umhyggju þau spor sem leiða til betri heilsu.

 

Heilsupistill Mjöll Jónsdóttir Sálfræðingur Heilsustöðin, sálfræði- og ráðgjafarstofa. www.heilsustodin.is