Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Mjög miklar líkur eru á bata þegar fólk sem þjáist af þunglyndi sækir gagnreynda sálfræðilega meðferð hjá sálfræðingi.
Hugrekki Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 5
LélegGóð 

Kannski sérðu nágrannann koma út um dyrnar á morgnana. Þér finnst það sjálfsagt að sjá hann þarna en það sem þú veist ekki er að það getur hafa kostað hann ótrúlega mikið hugrekki að komast út um dyrnar.

Við eigum öll mjög margt sameiginlegt sem manneskjur en við tökumst oft á við hlutina á mismunandi hátt. Að sýna hugrekki þýðir þó alltaf að við tökumst á við aðstæður sem við erum hrædd við. Aðstæður sem við upplifum sem ógnandi eða áhættusamar og stundum sársaukafullar.

Hjá einhverjum sem þjáist af kvíða getur það krafist mikils hugrekkis bara að fara út úr húsi.

Þegar við tölum um hugrekki í daglegu tali erum við kannski frekar að hugsa um einhverja sem þora að gera eitthvað sem okkur sýnist hættulegt eins og að klifra upp klettavegg eða henda sér niður skíðabrekkurnar á fullri ferð. Það merkilega er að það er ekkert víst að það krefjist nokkurs hugrekkis af þeim. Ef fólk er ekki hrætt við aðstæður þá kalla þær heldur ekki á hugrekki.

Þó að það séu oft svipaðir hlutir sem við hræðumst þá geta ákveðnar aðstæður krafist mikils hugrekkis af sumum og öðrum ekki. Þessi sem á stundum erfitt með að fara út fyrir dyr á kannski frekar auðvelt með að sýna annarri manneskju sínar innstu tilfinningar og hugsanir á meðan það myndi krefjast mjög mikils hugrekkis af skíðagarpinum að hleypa öðru fólki að sér.

Sumir þurfa á miklu hugrekki að halda til að mótmæla og láta vita að þeir séu ósammála einhverjum, aðrir þurfa ekki hugrekki til að ganga á móti straumnum, þeir gera það óhræddir.

Það sem við óttumst er oft háð því hvað við höfum upplifað og hvað við höfum lært í lífinu. Einnig virðist sum hræðsla geta verið meðfædd, allavega hafa verið gerðar rannsóknar á ungabörnum sem bentu til þess að lofthræðsla gæti verið meðfædd. Það breytir því ekki að hún getur háð einhverjum verulega á meðan aðrir finna ekki fyrir henni.

Við eigum oft bágt með að skilja hvað það krefst mikils hugrekkis af öðrum að takast á við hluti sem við hræðumst ekki sjálf. Fólk á stundum erfitt með að setja sig í spor annarra. Ef þér finnst mjög gaman að fljúga getur það verið erfitt fyrir þig að skilja flughræðslu og að sama skapi ef þú átt erfitt með að tala í margmenni getur það verið erfitt fyrir einhvern annan að skilja hvað það krefst mikils hugrekkis af þér að kveða þér hljóðs á fundi.

Stundum getur maður forðast það sem maður óttast en þegar hræðslan kemur í veg fyrir að þú getir lifað því lífi sem þú vilt lifa þá þarftu á hugrekki að halda.

Með hugrekki getur maður unnið á óttanum smá saman.

Það er eitt af því sem er svo gefandi við að vinna sem sálfræðingur að hitta svo margt hugrakkt fólk sem horfist í augu við óttann en gerir sér kannski ekki einu sinni grein fyrir eigin hugrekki.

 

Ásdís Herborg Ólafsdóttir sálfræðingur