Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Streita, kvíði og þunglyndi veikir ónæmiskerfið. Mikil streita, kvíði og þunglyndi eykur því t.d. líkur á því að kvefast.
Úr fjötrum fortíðar Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 5
LélegGóð 

Fortíðin er saga hvers einstaklings.images/stories/bryndiseinarsd.png Þar eru ótal þættir sem hafa mótandi áhrif á okkur og á mótunarárunum höfum við yfirleitt ekki mikið val um eða stjórn á þessum þáttum. Við fæðumst með einhver gen, inn í einhverja fjölskyldu sem ákveður hvar við búum og í hvaða skóla við göngum. Í skólanum er fólk, bæði fullorðið og börn sem hafa líka áhrif á okkur. Þar fyrir utan eigum við afa og ömmur, frænkur, frændur og nágranna. Öll búum við líka í samfélagi sem hefur töluverð áhrif á hver við erum, jafnvel meiri en við gerum okkur oft grein fyrir. Öll börn, hvar sem er í heiminum alast upp í umhverfi sem á að undirbúa þau undir það samfélag sem tekur við þeim á fullorðins árum. Í langflestum tilvikum stígum við inn í heim fullorðinna með lærdóm og færni sem hjálpar okkur að fóta okkur þar. Við sitjum þó öll uppi með eitthvað sem hafði neikvæð áhrif á okkur eða eitthvað sem var gagnlegt í fortíðinni en sem er minna gagnlegt í dag. Sem dæmi má nefna að barn sem elst upp hjá alkahólista lærir kannski að það verður að hegða sér í samræmi við líðan alkans til að halda friðinn á heimilinu, hugsanlega það eina sem barnið gat gert í aðstæðum sem það komst ekki úr.  Seinna þegar viðkomandi er orðinn fullorðinn er þessi sama hegðun ekki lengur gagnleg. Í daglegu tali köllum við þessa hegðun meðvirkni. Mótandi aðstæður fortíðar, mat okkar á þeim og líðan skapa grunninn að viðbrögðum og líðan okkar í dag. Hvort sem það er sjálfstraust, óöryggi, ótti eða áræðni.

Ekki gleyma að þeir sem okkur finnst hafa haft á okkur neikvæð áhrif eiga líka sína sögu. Flestir eru að gera sitt besta, gera eins og þeir geta og fæstir leggja upp með að hafa neikvæð áhrif á aðra. Það sitja allir uppi með fortíð sem hefur áhrif á lífsskoðanir þeirra og framkomu. Það getur verið gagnlegt að skoða fortíðina til að skilja betur af hverju við bregðumst við eða líður eins og við gerum í dag. Við erum ekki að leita að sökudólgum eða réttlætingum heldur að auknum skilningi á fortíðinni, viðbrögðum okkar og líðan. Það er sá skilningur sem gerir okkur kleift að losna við fjötra fortíðar. Það er því ekki gagnlegt að kenna fortíðinni um hrakfarir okkar en ef við af mildi gagnvart okkur sjálfum og samferðarmönnum okkar horfum til fortíðar til að öðlast skilning á vegferð okkar þá getum við kannski séð að við líka gerðum okkar besta og nýtt þann skilning til að halda áfram að vaxa sem manneskjur.

Við getum ekki endurskrifað fortíðina en við getum breytt viðhorfi okkar til þess sem hefur gerst og getum tekið meðvitaða ákvörðun um að sleppa takinu á því sem við höfðum enga stjórn á, ásamt því að vilja breyta því sem við getum í dag. Það er mikilvægt að sjá fyrir sér hvert við viljum stefna, hver við viljum vera, hvað við viljum standa fyrir og hvernig við viljum bregðast við. Ef við vitum hvert við viljum stefna getum við byrjað að taka skref í rétta átt.

Bryndís Einarsdóttir sálfræðingur