Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Mörg verkalýðsfélög styrkja félagsmenn sína til að sækja meðferð hjá sálfræðingi.
Lausn vandamála Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 1
LélegGóð 

Við stöndum öll frammi fyrir ýmsum vandamálum á lífsleiðinni, þau eru sjálfsagður hluti af lífinu. Vandamálin geta verið misstór og misjafnt hversu auðvelt er að leysa þau. Við bregðumst mismunandi við ef eitthvað bjátar á en margir hafa örugglega upplifað þá tilfinningu að erfiðleikarnir séu svo yfirþyrmandi að það hljóti að vera ómögulegt að leysa úr þeim. Hvort sem við erum að reyna það ein eða með öðrum.

Það gerist að við sitjum föst og einblínum svo mikið á vandamálið að við komum ekki auga á neinar lausnir. Einföld mynd af  þessu er maðurinn sem stendur fyrir framan lyftudyrnar og les aftur og aftur seðilinn þar sem stendur að lyftan sé biluð. Hann þarf að komast upp á þriðju hæð en áttar sig ekki á að horfa aðeins til hliðar þar sem hann hefði komið auga á tröppur. Maður í hjólastól hefði þurft að finna enn aðra lausn, t.d. að hringja og biðja um að fundurinn yrði haldinn á fyrstu hæð. Það eru ekki sömu lausnir sem henta okkur öllum.

 

Stundum reynum við að leysa sama vandamálið ítrekað með sömu aðferðum. Það er eins og við höldum að með því að beita sömu aðferðinni aftur og aftur hverfi vandamálið að lokum.

Bíflugan sem vill komast út í fríska loftið á það til að fljúga ítrekað á rúðuna til að reyna að komast út. Hún ætti bara að vita að glugginn fyrir ofan hana er opinn og þar kæmist hún auðveldlega út í fallegan sumardaginn.

Til að leysa vandamál þarf að reyna nýjar lausnir, ekki eitthvað sem hefur verið margreynt og virkar ekki.

Það er mikið til í því sem Amerískur fréttamaður, Sidney J. Harris, sagði einu sinni; að klípan sem við erum í er að við bæði hötum og elskum breytingar, helst vildum við að allt væri við það sama en yrði samt betra.

Þetta er náttúrlega algjör mótsögn, ekkert verður betra án þess að breytast.

Þetta á við um sálræna og andlega örðugleika eins og allt annað.

Það krefst oft hugrekkis að horfast í augu við vandamálin, gera eitthvað í málunum og koma af stað breytingum. Maður veit hvað maður hefur en ekki hvað maður fær. Það sýnir sig að stundum eru smávægilegar breytingar nóg og ekki mikið sem þarf til að finna góða lausn.

Oft er það auðveldara að sjá lausnirnar á vandamálum annarra heldur en sínum eigin og það getur verið óþolandi að hlusta á aðra segja manni hvernig maður á leysa málin. Einhver sagði að bjartsýnismaðurinn sæi alltaf björtu hliðarnar á vandamálum annarra.

Ef við viljum finna okkar eigin lausnir verðum við að leggja okkur fram og vera tilbúin til breytinga þó þær geti verið óttavekjandi.

 

Ásdís Herborg Ólafsdóttir sálfræðingur