Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Sálfræðilegur stuðningur og meðferð getur hjálpað sjúklingum, fjölskyldu og ástvinum að aðlagast lífi með alvarlegum sjúkdómum.
Hvernig hefur ÞÚ það? Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 2
LélegGóð 

Flestir hafa upplifað að einhver þeim nákominn sé að ganga í gegnum erfiðleika, veikindi,skilnað, missi, áföll, breytingar á högum og svo mætti lengi telja. Jafnvel að einhver þeim nákominn sé nálægt öðrum sem er að glíma við mikla erfiðleika og það hefur mikil áhrif á viðkomandi sem er þá oftar en ekki í stuðningshlutverki.

Oft gleymist að þeir sem eru í stuðningshlutverkinu séu líka undir miklu álagi og eru með áhyggjur af þeim sem þeir eru að styðja. Stuðningshlutverkið krefst mikils og getur verið mikið álag á hversdagsleika þess sem er í því hlutverki. Á sama tíma er oft ætlast til þess að stuðningsaðilinn sinni sínu daglega lífi af sömu atorku og venjulega, sé jafnvirkur þátttakandi og sé í jafnvægi. Það er jú ekki hann (hún) sem er veikur eða upplifði áfallið, eða hvað? Eru þetta hugsanlega óraunhæfar kröfur? Sá sem er í stuðningshlutverkinu upplifir oft að hann (hún) hafi ekki leyfi til að barma sér, líða illa, vera þreyttur eða leita sér stuðnings. Nærumhverfinu er oftast umhugað um þann sem er veikur eða upplifði áfallið og fáir velta fyrir sér hvernig aðstandendum (stuðningsaðilum) líður. Oft tala makar sjúklinga um að fólk spyrji hvernig sá sem er veikur hafi það en fáir velta fyrir sér hvernig makanum líði. Ofan á þær kröfur um að stuðningsaðili haldi réttum takti í sínu hversdagslega lífi, bætist oft við umönnun af einhverju tagi og að taka við hversdagslegum verkum þess sem er veikur. Manneskjan er í eðli sínu nokkuð sterk og við höfum getu til að auka hraðann og takast á við erfiðleika en einungis tímabundið. Fólk heldur svona ástand bara út í ákveðinn tíma áður en undan fer að láta.

Það þarf oft ekki mikið til að létta undir með stuðningsaðila, stundum er nóg að samþykkja og sýna viðkomandi að við höfum skilning á því sem viðkomandi er að ganga í gegnum. „Hæ, hvernig hefur ÞÚ það?“ getur breytt miklu. Á öld samskiptamiðla þar sem minna er um að fólk kíki í kaffi eða taki upp símtólið er fjarlægðin meiri á milli fólks og við í raun vitum minna hvernig fólki líður, flestir birta bara stöðufærslur á samfélagsmiðlum af sér brosandi eða þegar allt gengur vel.

Ef þú veist um einhvern í þínu nærumhverfi sem hefur misst einhvern sér nákominn, eða einhver þeim nákominn er að glíma við erfið veikindi eða áfall, hvernig væri þá að kíkja í kaffi eða taka upp símtólið og tala við viðkomandi. Heyra hvernig hann (hún) hefur það og sýna hluttekningu og skilning í verki, ekki bara setja „like“ eða „love“ í stöðufærsluna.