Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Á hverjum tíma þjást 10-15% af fólki af langvarandi svefnleysi, eða um 30-45 þús Íslendingar.
Leti Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 5
LélegGóð 

Ég hitti oft fólk sem er mjög óánægt með hversu latt það er, skammast sín fyrir letina og vill losna við hana.

 

Ég er þeirrar trúar að leti geti verið af hinu góða, holl og heilsusöm á köflum.

Þjóðfélagið hefur þróast hratt síðustu áratugi og er í rauninni allt annað þjóðfélag en það var í gamla daga þegar fólki féll aldrei verk úr hendi. Það þýðir ekki að það sé ekki meira en nóg að gera í dag en vinnan þá var kannski áþreifanlegri og það var bara gengið í verkin.

Nú til dags eru margir mjög uppteknir og á stöðugum hlaupum úr einu í annað. Áreitið getur verið gífurlegt og kröfurnar um að vera alltaf að stundum yfirþyrmandi. Streitan hrjáir marga.

 

Hérna held ég að góð, gamaldags leti geti komið til hjálpar. Maður hreinlega stoppar allan hamaganginn og tekur sér smá hlé. Leggst upp í sófa og glápir út í loftið eða gerir eitthvað annað til að slappa af.

Í letinni getum við nefnilega fundið ró og hvílt hugann frá amstri dagsins, látið allar kvaðir lönd og leið. Við þurfum ekki að setja okkur í stellingar til að njóta letinnar, við þurfum ekki einu sinni að halda athyglinni á núverandi stund eða nokkru öðru. Við getum einmitt bara legið í leti.

 

Það getur verið áhugavert að taka eftir hvenær við finnum fyrir leti, það er nefnilega stundum hægt að nota hana til að átta sig á aðstæðum. Ef við finnum alltaf fyrir letinni í sömu aðstæðum, þá gæti verið skynsamlegt að skoða það svolítið nánar hvort við erum að fást við eitthvað sem við eigum erfitt með að finna út úr eða sætta okkur við.

Auðvitað verður maður og neyðist til að gera fleira en gott þykir, líka það sem við höfum ekki brennandi áhuga á. Það er ekki það sem um er að ræða heldur ef maður í lengri tíma nennir alls ekki því sem maður ætti að vera að gera, hvort sem er heima, í vinnu eða skóla. Þá er kannski kominn tími til að hugsa um að skipta um farveg.

 

Letinni má þó ekki rugla saman við frestunaráráttu. Sumir hafa komið sér upp þeim vana að gera allt á síðustu stundu, álíta að þeir vinni best undir miklu álagi. Ef manni líður best með að vinna svoleiðis er það bara í fínu lagi en það er líka hægt að breyta venjum og minnka álagið ef það er æskilegt.

 

Annað sem ekki má rugla saman við leti er þunglyndi. Þunglyndi getur verið svo gífurlegt að maður bókstaflega getur ekki neitt og kemur engu í verk en við alvarlegt þunglyndi koma fram mörg önnur einkenni sem eiga ekkert skilt við leti. Þunglyndi er sjúkdómur og það er leti ekki. Það þarf að passa sig á að ásaka ekki veika eða vanmáttuga um leti.

 

Fyrir mörgum árum í einhverjum bílaverksmiðjum í Ameríku var aðili fenginn til að taka út fyrirtækið og komast að hvernig hægt væri að hámarka afköstin. Viðkomandi fór í gegnum allt fyrirtækið, bæði verksmiðjur og skrifstofur og niðurstaðan var að hann ráðlagði að segja upp manni sem sat á skrifstofu með lappirnar uppi á borði og gerði akkúrat ekki neitt. Forstjórinn harðneitaði og sagði að þetta væri einn af þeirra verðmætustu starfskröftum, sá sem fékk allar góðu hugmyndirnar og bryddaði upp á nýjungum. Nútímafyrirtæki virka trúlega ekki svona lengur en það breytir ekki því að það spretta ábyggilega margar góðar hugmyndir upp úr letikasti. Einmitt það að það eru engar kvaðir bundnar við leti getur gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

 

Ég hvet fólk til að lofa letina og taka henni opnum örmum því hún felur í sér algjört aðgerðaleysi og það er oft það sem við þurfum í hröðum heimi.

Í dag getum við flest leyft okkur að velja þann munað í smástund að gera ekki neitt og er hollt ef við leyfum okkur það með góðri samvisku.

 

Ásdís Herborg Ólafsdóttir

Sálfræðingur