Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Mörg verkalýðsfélög styrkja félagsmenn sína til að sækja meðferð hjá sálfræðingi.
Hættum ekki að leika okkur Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 5
LélegGóð 

Nýjasta æði Íslendinga og heimsins alls er Pokémon Go. Tölvuleikur spilaður í símum sem krefst þess að ferðast sé um í raunheimi til að leita uppi og fanga þær furðuverur sem birtast á skjánum. Furðuverurnar er svo hægt að styrkja, þjálfa og þroska þannig að þær geti staðið sterkar í gegnum bardaga sem fara fram víðsvegar í þessum blandaða heimi tölvunnar og veruleikans.

 

Það þykir frekar slæmt þegar fólk eyðir mjög miklum tíma í að spila tölvuleiki. Það þykir ekki gott að sitja of fastur við skjá og margir telja að ungviðið ætti að verja meiri tíma utandyra og hreyfa sig meira. Það sama mætti reyndar einnig segja um eldri kynslóðirnar enda ófáar stundirnar sem fólk á öllum aldri eyðir sitjandi fyrir framan sjónvarp, jafnvel eftir vinnudaginn sitjandi við skjá. Nú þegar Pokémon Go hefur slegið svona rækilega í gegn er samt mikilvægt að muna að tækifærin koma í öllum stærðum og gerðum.

 

Hættum ekki að leika okkur

 

Samvera og sameiginleg áhugamál eru mikilvæg fyrir tengslin við okkar nánustu. Það er ekki bara mikilvægt að tala um það sem þarf að laga og deila tilfinningum. Það er líka mikilvægt að hætta ekki að leika okkur. Hætta ekki að hafa gaman. Líklega eru flest börn sem hafa aðgang að snjallsíma nú þegar farin að safna Pokémonum. Líklega finnst þeim það mjög gaman. Spurningin er því hvort foreldrar (nú eða ömmur og afar) þessara barna gefi þeim lausan tauminn eða noti þetta sem tækifæri til samveru, samskipta og tengsla. Jafnvel gleði. Þær eru fallegar sögurnar af leiknum sem segja frá kynnum manna á milli sem mynduðust í leik, fjölskyldum sameinuðum á Klambratúni, ruslatínslu spilara og fólki sem var félagslega einangrað en fann skjól og kjark í leiknum til að fara út á meðal fólks, niður í bæ og átti jafnvel spjall við næsta mann um þessar fallegu furðuverur og leikgleðina.

 

Jákvætt eða neikvætt?

 

Allir hlutir hafa við sig eitthvað jákvætt og eitthvað neikvætt. Þessi leikur, eins og svo margt annað, getur t.d. tekið tíma unglingsins frá fjölskyldunni og valdið ágreiningi. Hann getur hins vegar líka verið einstaklingum, fjölskyldum, pörum og vinum skemmtilegt áhugamál og samvera. Hann getur verið tækifæri til hreyfingar og hvatt til aukinna kynna af nærumhverfi okkar, jafnvel ferðalaga. Hvort á hið neikvæða eða jákvæða við um þig og þína? Er eitthvað sem þú getur gert öðruvísi ef það neikvæða er of áberandi?

 

Pokémon eða ekki Pokémon, þá legg ég til að við notum tækifærið núna til að minna okkur almennt á að hafa gaman. Ég legg það til að þú leikir þér í dag og takir með þér þá sem þér þykir vænst um.