Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Á grundvell rannsókna á hollri hreyfingu ráðleggja heilbrigðisyfirvöld fullorðnu fólki að stunda líkamlega hreyfingu í hálfa til eina klukkustund daglega.
Að ná árangri Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 4
LélegGóð 

Öll þjóðin og stór hluti heimsbyggðarinnar hefur fylgst með og dáðst að íslenska karlalandsliðinu í fótbolta á undangengnu EM í Frakklandi. Mikið hefur verið spáð í hvernig landslið frá rúmlega 300 þús. manna þjóð geti verið svona gott og náð svona langt.  Að baki góðs árangurs, hvort sem er á fótboltavellinum, öðrum íþróttum, vinnu eða einkalífinu liggja sömu lögmál. Ég ætla ekki að fjalla hér um fótboltafærni leikmanna, enda ekki mitt sérsvið en ég vil benda á nokkur lykilatriði sem auka líkur á árangri hvar sem er í lífinu.

Sátt um mistök

Öll gerum við mistök, það er okkur ómögulegt að vera fullkomin eða óbrigðul. Hástökkvari sem setur heimsmet stekkur ekki þá hæð í öllum mótum eða æfingum, nær því kannski bara einu sinni á ævinni. Við höfum val um hvernig við mætum mistökunum okkar. Einstaklingar sem ná afburða árangri eiga það sameiginlegt að gera ráð fyrir því að gera mistök. Þeir eru óhræddir við þau og í raun horfa á mistök sem tækifæri til að læra af, breyta og bæta hegðun og/eða hugsun.

Jákvæð hugsun

Þeir sem ná árangri mæta sjálfum sér og liðsfélögum, þegar mistök verða eða illa gengur með jákvæðum, hvetjandi og uppbyggilegum hætti.

Opinn hlustandi hugur - vilji til að tengjast

Til að ná árangri er mikilvægt að vera auðmjúkur gagnvart þekkingu og reynslu annarra og tilbúinn að læra. Til þess er mikilvægt að hafa einlægan áhuga á bæði sjálfum sér og öðrum.  Við erum alltaf á einhvern hátt hluti af liði, hvort sem liðið okkar klæðist fótboltabúningi, er vinnustaðurinn okkar eða fjölskyldan.  Mikilvægt er að traust, virðing, samvinna, umburðarlyndi og skilningur ríki á milli liðsfélaga. Til að það sé hægt þurfa allir að vera tilbúnir að tjá sig, segja hvert við erum að senda boltann, hvort við viljum fá hann og hvað við ætlumst til af liðsfélögum okkar.

Persónuleg markmið sem hægt er að hafa stjórn á

Lykilatriði er að forðast ósanngjarnan samanburð við aðra eða miða markmiðin sín við eitthvað sem við höfum ekki stjórn á.  Ég get t.d haft stjórn á því að æfa mig í að halda bolta á lofti og sett mér það markmið að ná að halda honum 50 sinnum en ég get ekki stjórnað því að ég haldi honum mest á lofti af öllum í liðinu, ég hef enga stjórn á því hversu mikið liðsfélagarnir æfa sig eða hversu færir þeir eru.

 

Sveigjanleiki – aðlögunarhæfni

Til að ná árangri er mikilvægt að vera tilbúinn að endurskoða markmiðin reglulega, breyta af leið og aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Við getum fengið nýja liðsfélaga og þjálfara eða mætt óvæntum mótherjum. Því höfum við ekki stjórn á en við höfum alltaf stjórn á okkar viðbrögðum. Að mæta hverri nýrri áskorun með opnum og vakandi huga þýðir að við sjáum frekar tækifærin og þá er bara að vera tilbúinn að stökkva og svo hlúa að sér og læra ef stökkið mistókst, næst gæti það tekist.

 

Ég tel við hæfi að enda á tilvitnun frá Micael Jordan sem er einn af mínum uppáhaldsíþróttamönnum:

„Ég hef geigað á meira en 9000 skotum á ferli mínum

Ég hef tapað um 300 leikjum

Mér hefur verið treyst fyrir úrslitaskotinu og ekki hitt 26 sinnum

Mér hefur margoft mistekist

og þess vegna hef ég náð árangri.“