Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Það að horfa á stjónvarp í svefnherberginu eykur líkur á svefnerfiðleikum og svefnleysi.
Vorið er komið og grundirnar gróa Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 0
LélegGóð 

Þegar árstíðarskipti eru og vetrinum er lokið ganga í garð breytingar. Gróðurinn sprettur, farfuglarnir koma og börnin hlaupa um á peysunum. Á þessum árstíma eykst oft annríkið og uppbrot verður á daglegum venjum. Tómstundastarfi vetrarins er að ljúka með tilheyrandi sýningum, mótum og foreldraheimsóknum. Skólastarfið er einnig að klárast og bekkjarkvöldin raðast inn ásamt foreldraheimsóknum í skólana. Við þetta bætist oft aukið félagslíf hjá þeim fullorðnu þar sem á að ná öllum uppákomum og vinnustaðasamkomum áður en fólk týnist í sumarfrí. Þegar dagurinn er orðinn langur og birtan mikil fyllast líka margir mikilli orku og það á sko að taka til í bílskúrnum, garðinum, fataskápunum og mála pallinn.

Þegar uppbrot verður á venjubundnu mynstri fjölskyldunnar og framundan er tími óendanlegrar birtu er vert að hafa nokkur atriði í huga.

Það þarf ekki að taka þátt í öllu

Reyndu að forgangsraða, hvað er mikilvægast, hverju viltu taka þátt í og hverju geturðu sleppt. Geturðu skipt einhverju niður, tekið þátt í hluta, ekki öllu. Mundu að þú mátt ákveða hvað er best fyrir þig og þína fjölskyldu.

 

Það þarf ekki að vera bestur í öllu

Hvað gerist ef þú mætir ekki með heimagerðar veitingar eða það er illgresi í garðinum?  Kannski er í lagi að gera málamiðlanir og velja hvað skiptir máli. Lífið heldur áfram og við getum ekki verið í okkar besta formi á hverjum degi. Það sem þú getur gert í dag er nóg og á morgun kemur nýr dagur.

 

Það þarf ekki allt að vera frábært

Hvort sem það er fjölskylduboð, vinir að hittast eða bekkjarskemmtun hjá barninu þá koma hlutir upp á, það er ekki alltaf allt æðislega gaman. Þrátt fyrir það er hægt að njóta augnabliksins, ná að stoppa og vera meðvitaður um  að þetta augnablik er það sem það er og sjá fegurðina í því.

 

Gefðu þér séns og njóttu þess sem er

Vorið er tími umskipta.  Náttúran er að vakna til lífsins og við erum hluti af náttúrunni. Enginn býst við því að björninn komi spriklandi út úr vetrarhýðinu. Honum er eðlilegt að byrja að teygja úr sér, hreyfa sig rólega og píra aðeins augun til að venjast sólarljósinu. Líkaminn okkar er að aðlagast árstíðarbreytingunni, aukinni birtu og hlýnandi veðri. Við erum eins og aðrar lífverur á þessari jörð að aðlagast og finna nýjan takt. Gefðu þér tíma til að slaka á, hlusta, njóta og vera. Gefðu þér tíma til að sannarlega upplifa hvert augnablik eins og það birtist og eins og þú upplifir það án þess að skilgreina, dæma eða mynda þér skoðun.

 

Höf. Bryndís Einarsdóttir

Sálfræðingur