Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Reglubundin hreyfing bætir líðan og lífsgæði. Hreyfing liðkar og styrkir líkamann, eykur úthald og leiðir til framleiðslu vellíðunarhormónsins endorphine
Hvað er núvitund? Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 2
LélegGóð 

Núvitund er ákveðin tegund hugleiðslu. Dæmigerð hugleiðsla felur í sér að beina athyglinni að hverjum andardrætti og þegar hugurinn hvarflar frá, að taka eftir þeim hugsunum sem birtast en færa athyglina aftur að andardrættinum. Vitundin um að hugsanir koma og fara að eigin hentugleika eykst og engin þörf er á að bregðast við þeim. Einstaklingur sem stundar hugleiðslu lærir að hugsanir og tilfinningar eru bara tímabundið ástand og hann getur valið hvort hann vilji bregðast við þeim eða sleppa þeim. Núvitund snýst um að taka eftir því sem gerist innra með  manni með væntumþykju og án þess að gagnrýna. Fylgst er með vanlíðan með einlægri forvitni og tekið eftir því hvernig líðan leysist upp og heldur sinn veg. Með iðkun núvitundar verða  langtíma breytingar á líðan, hamingja og  vellíðan eykst. Þeir sem stunda hugleiðslu reglulega fara sjaldnar til læknis og eyða færri dögum á spítala. Minni verður betra og sköpun eykst.

Þrátt fyrir augljósa kosti núvitundar eru margir hikandi og á varðbergi þegar þeir heyra orðið hugleiðsla. Því er mikilvægt að leiðrétta nokkrar goðsagnir um hugleiðslu.

Hugleiðsla er ekki það sama og trúarbrögð. Núvitund er einfaldlega aðferð við að þjálfa hugann.  Bæði trúaðir og trúlausir iðka hugleiðslu reglulega.

Það þarf ekki að sitja í sérstakri stöðu með krosslagða fætur á gólfinu þó það sé vel hægt. Margir sitja á stól eða liggja. Það er enn fremur hægt að þjálfa núvitund í hversdeginum, með aukinnni vitund um hversdagsleg verkefni.  Í raun er hægt að hugleiða nánast hvar og hvenær sem er.

Það er ekki tímafrekt að þjálfa sig í núvitund en þó krefst það nokkurrar þolinmæði og staðfestu. Margir sem iðka núvitund upplifa minni tímapressu og meiri tíma til að raunverulega njóta þess sem lífið bíður upp á.

Hugleiðsla er ekki flókin og snýst ekki um árangur eða mistök. Jafnvel þegar hugleiðsla er erfið felur það ferli í sér mikilvægar og hjálplegar upplýsingar um starfsemi hugans.

Hugleiðsla sljóvgar ekki hugann eða dregur úr metnaði. Hugleiðsla eykur ekki falska jákvæðni og snýst ekki um að samþykkja það sem er óásættanlegt.  Hugleiðsla snýst um að sjá veröldina skýrum augum og þannig vera betur fær um að taka skynsamlegar og betur ígrundaðar ákvarðanir og breyta því sem þarfnast breytinga.

 

Að iðka núvitund hjálpar til við að rækta djúpan skilning á innri veruleika og gerir iðkandanum kleift að sannarlega sjá hvað er mikilvægt í lífi hans. Þegar markmiðin í lífinu verða skýr verður leiðin að markmiðunum augljósari.

 

Bryndís Einarsdóttir sálfræðingur