Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Megin markmiðið næringarráðgjafar er að kenna fólki að veita líkamanum þau næringarefni sem hann þarfnast og stuðla þannig að heilbrigði. Einnig er markmiðið að veita næga orku til viðbótarhreyfingar sem veitir andlega og líkamlega vellíðan.
Það góða við það vonda Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 4
LélegGóð 

Það að líða vel er hið ákjósanlegasta ástand enda eyða margir miklu púðri, tíma og peningum í að hámarka þá upplifun og leita að hamingjunni. Það er auðvitað sjálfsagt og gott markmið að vera hamingjusamur enda efumst við lítið um gildi jákvæðra tilfinninga fyrir líf okkar.

Það sama er hins vegar ekki alltaf sagt um neikvæðar tilfinningar. Á þeim liggur oft þungur dómur. Okkur finnst við sjálf og ekki síður hinir vera of neikvæðir, ekki geta fyrirgefið eða missa sig í reiði eða kvíða þegar önnur viðbrögð væru ásættanlegri eða þroskaðri. Það að líða illa hefur oft á sér örlítið illt orð og er jafnvel stimplað óverðskulduðum stimpli veikleika eða ójafnvægis. Reiði er t.d. ein af fordæmdum tilfinningum dauðasyndanna sjö. Dauðasyndum! Já það er nú aldeilis að það hlýtur að vera rangt að vera reiður! Eða er það?

Merking tilfinninganna

Hvað er að gerast hjá okkur þegar okkur líður illa? Hvaða merkingu hafa erfiðar tilfinningar? Getur jafnvel verið að þessar tilfinningar séu okkur gagnlegar á einhvern hátt? Tilfinningar hafa miklu víðari merkingu og tilgang en einungis að tjá það hvernig okkur líður. Þær eru ekki bara viðbragð við því sem gerist sem gufar svo upp.

Þegar okkur finnst okkur ógnað upplifum við ótta og þessi ótti hvetur okkur til þess að bregðast við, til þess að laga aðstæðurnar, svo við forðum okkur eða tökumst á við hættuna eftir því sem við á. Óttinn berst gegn því sem við viljum ekki, hann er drifkraftur sem hvetur og hreyfir okkur til að gera það sem þarf til að eyða ógninni.

Gagnlegt að hlusta

En þegar við finnum fyrir kvíða við upphaf nýrrar vinnuviku? Hvað getur sú kvíðatilfinning verið að tjá okkur um aðstæður, vinnuálag, verkefni eða samskipti á vinnustaðnum? Gæti kvíðinn mögulega verið að segja okkur eitthvað sem við þurfum að heyra? Um eitthvað sem við þurfum að breyta, aðlaga eða takast á við? Gæti verið gagnlegt að hlusta og bregðast við?

Það sama á við í óendanlega mörgum aðstæðum. Þegar við verðum óörugg þegar okkur finnst maki okkar ekki sýna okkur athygli. Þegar við verðum döpur og hugsum til þess sem við hefðum viljað að væri. Það er nefnilega svo merkilegt með allar þessar tilfinningar, þægilegar eða óþægilegar. Þær segja okkur svo margt sem gott er að heyra.

 

Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur