Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Mikil streita á vinnustað getur tvöfaldað líkur á því að deyja af völdum hjartasjúkdóma.
Sorgin og lífið Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 2
LélegGóð 

Ástvinamissir getur átt sér stað hvenær sem er á lífsleiðinni. Sorg er sálfræðilegt viðbragð við ástvinamissi. Þegar ástvinur deyr og sterk tengsl rofna getur það haft áhrif á allar hliðar lífsins og mikilvægt að aðlagast breyttum aðstæðum.

Það er algeng hugmynd að sorgarferli eigi sér stað í stigum. Margar kenningar fjalla um sorgarstigin, yfirleitt frá þremur til fimm stigum. Sumir upplifa fyrst áfall eða dofa, síðan kemur tímabil depurðar og mikils söknuðar. Yfirleitt dregur úr afneitun, þrá, depurð og reiði eftir því sem fólk meðtekur andlátið. Lokastigið er alltaf einhvers konar úrslausn sorgarinnar. Styrkleiki og tímalengd sorgarferlisins fer eftir mörgum þáttum eins og persónugerð einstaklingsins, tengslum við þann látna og kringumstæðum andláts.

Eðlilegt sorgarferli getur tekið mánuði og jafnvel nokkur ár. Sérfræðingar í sorg leggja til í auknum mæli að  það sé eðlilegt og heilbrigt að viðhalda tengslum við þann látna. Úrvinnsla sorgar felur ekki í sér að gleyma þeim látna, draga úr væntumþykju í garð hins látna eða rjúfa tengslin. Um helmingur þeirra sem missa ástvin upplifa ekki mikið tilfinningalegt áfall og dofa, meðtaka missinn og aðlagast breyttum aðstæðum.  Yfirleitt upplifa þessir einstaklingar ekki fyrstu stigin, áfallið og depurðina.  Megin viðbrögð þessa hóps er samþykki á andlátinu og endurhvarf til daglegs lífs. Þessi viðbrögð leiða ekki af sér seinkuð sorgarviðbrögð eins og áður var haldið. Rannsóknir sýna að seinkuð sorgarviðbrögð eru mjög sjaldgæf. Þannig ætti hvorki að líta á harkaleg sorgarviðbrögð né skort á þeim við andlát sem vísbendingu um frekari vanda.

Sorgarferlið er álitið vandamál ef það er of öflugt eða varir of lengi.  Sorgarviðbragð getur verið mjög öflugt og getur falið í sér mismunandi tímabil dapurleika, svefnleysis, þreytu, einbeitingarskorts og lystarleysis. U.þ.b 30% þeirra sem missa ástvin upplifa mjög sterk sorgarviðbrögð í kjölfar ástvinamissis. Fólk á það til að „festast“ í sorginni, sem er í raun það sem átt er við með hugtakinu þungbær sorg. Í langvarandi og þungbærri sorg á sá sem syrgir erfitt með að þokast áfram í sorgarferlinu og nær ekki að aðlagast missinum. Hann verður mjög upptekinn af minningum sem tengjast þeim látna og því sem áður var. Þetta ástand getur varað í marga mánuði og jafnvel fleiri ár. Í langvarandi og þungbærri sorg er syrgjandi þjakaður af sorg og söknuði. Viðkomandi dregur sig í hlé og gengur illa að taka upp fyrri lifnaðarhætti. Hver dagur er undirlagður af hugsunum og minningum sem tengjast þeim látna og því fylgja miklar og erfiðar tilfinningasveiflur. Tilfinningar eins og aftenging, dofi, einmanaleiki, tómleiki, tilgangsleysi og eftirsjá eru algengar sem og erfiðleikar við að meðtaka missinn. Það er einungis þegar þessi einkenni eru mjög mikil, viðvarandi og eru verulega farin að trufla daglegt líf, sem sorg er álitin sálrænn vandi.

Stuðningur í sorgarferlinu og aðstoð við úrvinnslu vegna andláts og sorgar getur verið mjög hjálplegt og flýtt fyrir aðlögunarferlinu og bætt líðan, hvort sem sorgin er álitin sálrænn vandi eða ekki.