Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Regluleg hreyfing dregur almennt úr streitu, kvíða og þunglyndi, og bætir svefn.
Lengi býr að fyrstu gerð Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 1
LélegGóð 

Góð og örugg tengsl milli foreldra og barna eru talin vera ein af grunnforsendum fyrir heilbrigðum félags- og tilfinningaþroska barnsins og þróun sjálfsmyndar.

Tengsl foreldris og barns byrja að myndast við fyrstu kynni og góð tengsl eru háð næmni foreldris á þarfir barnsins og færni til að veita öryggi, viðurkenningu og stuðning.

Alveg frá fæðingu eru börn tilbúin að eiga samskipti við umhverfi sitt. Foreldrið bregst við frumkvæði barnsins með því að taka eftir og koma til móts við þarfir þess. Í þessu gagnkvæma samspili sem einkennist af áhuga, skilningi og svörun foreldris við þörfum barnsins myndast öflug tengsl. Barnið finnur að eftir því sé tekið, á það sé hlustað og það sé mikilvægt.

Við þessi skilyrði lærir barn að miðla og stýra tilfinningum sínum. Það lærir að treysta, að takast á við hegðun sína og móta þá hugmynd sem við í daglegu tali köllum sjálfsmynd.

Líf barnsins heldur áfram að mótast í gegnum reynslu og samspil við aðra og leiðin er vörðuð með óteljandi viðfangsefnum og áskorunum. Að barnið eigi þess kost að geta rætt líðan sína í öruggu umhverfi með þeim sem það treystir styður það og verndar á þroskabrautinni. Þess vegna er mikilvægt er að hlúa að þessum tengslum frá fyrstu tíð og barnið hafi greiðan aðgang að foreldrum og stundum öðrum fullorðnum sem það treystir til að ræða viðfangsefni daglegs lífs. Það getur verið mun erfiðara að ræða viðkvæm og flókin mál við unglinginn ef samskiptum hefur verið ábótavant, en þó ekki útilokað og mikilvægt að muna að það er alltaf hægt að bæta samskipti.

Í upphafi árs þegar margir staldra við og huga að sinni forgangsröðun er samvera og góð tengsl við börnin okkar með því besta sem við veljum. Samvera er raunveruleg forvörn sem styður við jákvæðan þroska barna og unglinga og hún þarf ekki að vera kostnaðarsöm, skipulögð eða flókin. Hins vegar er góð samvera stemning sem verður til þegar börn og foreldrar deila tíma sínum saman og samveran endurspeglar gleði, áhuga og væntumþykju.

 

Guðríður Haraldsdóttir

Sérfræðingur í klínískri barnasálfræði