Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Flestir þeir sem þjást af þunglyndi fá ekki viðeigandi meðferð, annað hvort vegna þess að þeir leita sér ekki hjálpar eða vegna þess að vandamálið er ekki meðhöndlað með réttum hætti af þeim sem leitað er til.
Almennur kvíði Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 4
LélegGóð 

Það er eðlilegt að vera áhyggjufullur endrum og sinnum, sérstaklega þegar eitthvað bjátar á eða þegar óvissa ríkir. Áhyggjur geta þó tekið sinn toll og jafnvel orðið svo miklar að þær hamli daglegu lífi, valdi verulegri vanlíðan og hafi neikvæð áhrif á lífið og samskiptin við aðra. Stundum eru áhyggjurnar svo miklar að hægt er að kalla þær kvíða.

Almennur kvíði eru ýktar áhyggjur af hverdagslegum hlutum í okkar daglega lífi. Að hafa það ítrekað og endurtekið á tilfinningunni að eitthvað slæmt sé að fara að gerast og geta ekki hætt að hafa áhyggjur af t.d. heilsunni, fjármálum, vinnunni og velferð fjölskyldunnar. Það sem einkennir þennan kvíða er að þó hann geti verið afar sannfærandi fyrir þann sem áhyggjurnar hefur, þá virðist hann ekki endilega hafa eðlilega eða ákveðna skýringu og er óhóflegur miðað við aðstæður. Hugarástandið er markað áhyggjum og óöryggi sem fólk finnur að erfitt er að losna við.

Einkenni almenns kvíða eru:

Óþarfar og viðvarandi áhyggjur af því sem framundan er

Vandamál ofmetin

Eirðarleysi

Vöðvaspenna

Erfiðleikar með að slaka á

Höfuðverkur

Svitamyndun

Ógleði eða einkenni frá meltingarfærum

Tíð þvaglát

Þreyta

Skjálfti

Svefnvandamál

Vera stöðugt á varðbergi

Pirringur

Einbeitningarörðugleikar

Að bregða óeðlilega mikið

Eins og sést á þessum lista er ekki að undra að þeir sem þjást af almennum kvíða leita sér oft læknishjálpar í leit að líkamlegum útskýringum. Leit sem oft leiðir til tímafrekra rannsókna sem ekki skila niðurstöðum. Enda vandinn ekki líkamlegur þó einkennin séu að hluta líkamleg. Hugurinn og líkaminn vinna nefnilega saman og hugurinn getur kallar fram líkamleg viðbrögð rétt eins og líkaminn getur kallað fram hugræn viðbrögð.

Kvíði getur skert getu okkar til að framkvæma það sem við þurfum og viljum í okkar daglega lífi, tekur af okkur tíma og athygli frá öðrum verkefnum, dregur úr okkur orku og sjálfstraust. Það er erfitt að hafa miklar áhyggjur. Það verður ekkert af því skafið, kvíði er mjög óþægilegur. Það er því mikilvægt, ekki bara fyrir þá sem hafa það miklar áhyggjur að hægt væri að greina þá með kvíða, heldur alla þá sem finnst áhyggjur og kvíði taka of mikið pláss í lífi sínu, að leita sér upplýsinga og leita sér hjálpar ef ástæða er til. Það er getur oft verið eðlilegt að hafa áhyggjur, en það er ekki eðlilegt þegar það er oftast.