Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Hollt mataræði felur í sér fjölbreytt fæðuval, reglubundnar máltíðir, hæfilegar skammtastærðir og almenna hófsemi
Mikilvæg samskipti foreldra og barna Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 3
LélegGóð 

Mikil tilhlökkun getur fylgt því að byrja aftur í skólanum eftir sumarfrí. Að hitta vinina, skipta um bekk og komast í rútínu er fyrir suma mjög skemmtilegur tími. Fyrir aðra getur þessi tími, hins vegar, verið mjög streitu valdandi. Þegar ný önn byrjar verður námsefnið erfiðara, félagstengslin flóknari og meira að gera í tómstundum. Aukin pressa að fá háar einkunnir til þess að komast í drauma framhaldsskólann getur leitt til kvíða einkenna hjá sumum unglingum. Því má samt ekki gleyma að stress er ekki alltaf neikvætt. Þegar börn finna fyrir smá stressi þá getur það verið hvetjandi að læra heima og mæta í skólann. Þegar stress er orðið of mikið þá getur það verið hamlandi og leitt til þess að börn læra ekki heima, skrópa í tíma eða mæta ekki í próf.

Það getur verið fín lína á milli þess að setja hæfilegar eða of miklar kröfur á börn. Það sem mestu máli skiptir er að foreldrar tali við börnin sín. Í stað þess að veita verðlaun fyrir ákveðna einkunn þá er mikilvægt að foreldrar segi hversu stolt þau séu af börnunum sínum. Það er einnig mikilvægt að hvetja þau til þess að vera stolt af sjálfum sér. Að ræða á opinskáan hátt um líðan hjálpar börnum að vera meira meðvitaðri um tilfinningar sínar. Auðvitað eru börn mismunandi og ekki auðvelt að ræða við alla um líðan en með æfingu þá er líklegra að þess konar samskipti aukist. Þegar börnum mistekst þá er ekki síður mikilvægt að ræða um líðan. Gott getur verið að ræða um að mistök séu ekki heimsendir. Allir gera mistök og enginn er fullkominn. Mikilvægt er að foreldrar hlusti á börnin sín. Þegar mikið er að gera er gott að gefa sér smá tíma til að hlusta með athygli og gæta þess að vera ekki að hugsa um aðra hluti á meðan. Með því móti er líklegra að þau heyri hvað það er sem í raun er að angra barnið þeirra. Ein mistök eða röng ákvörðun sem barn tekur mun ekki skilgreina allt líf þess. Börn eins og aðrir þurfa á því að halda að finna fyrir stuðningi og að þeirra þörfum sé mætt með skilningi.

Rútína er mjög góð og getur hjálpað til við að minnka streitu og kvíða. Þess vegna getur verið góð hugmynd að vera með fasta tíma þar sem foreldri og barn setjast niður og eiga góða stund saman. Foreldri og barn ákveða í sameiningu hvernig þau vilja verja tímanum saman. Foreldrar jafnt og börn þurfa að minna sig á að dæma sig ekki of hart. Lærum af reynslunni og gerum okkar besta meira getum við ekki gert.

 

Ólöf Edda Guðjónsdóttir sálfræðingur