Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Mjög miklar líkur eru á bata þegar fólk sem þjáist af þunglyndi sækir gagnreynda sálfræðilega meðferð hjá sálfræðingi.
Þér mun mistakast Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 8
LélegGóð 

Trúlega mistekst þér, sérstaklega til að byrja með. Það er ekki bara í góðu lagi, heldur mjög mikilvægt.

Við þurfum að veita sjálfum okkur frelsi til að gera mistök.

Hugarfarið „annað hvort geri ég það fullkomið, eða ekki neitt“ hindrar okkur oft í dagsdaglegu lífi.  Ef við þorum ekki  að taka áhættuna á að mistakast, þá erum við læst inní okkar eigin þægindahring.  Án leyfis til að gera mistök og læra af þeim er hætt við að fyrstu mistökin verði þau síðustu, þar sem við reynum ekki aftur.  Reglan „mér má ekki mistakast“, allt-eða-ekkert-hugsanahátturinn, samræmist illa eiginleikum eins og hugrekki, þolinmæði, þrautseigju og sveigjanleika.

Darwin gat þess að það væru hvorki sterkustu né greindustu dýrategundirnar sem lifðu af, heldur þær sem áttu hvað auðveldast með að takast á við breyttar aðstæður, gátu aðlagast.

Að baki er oft ótti manneskjunnar við að verða dæmd ef hún er ekki fullkomin.   „Ég er ekki nógu góð, ekki nógu eitthvað“.  Tilhugsunin um að verða hafnað er ógnvænleg. Við erum félagsverur með ríka þörf fyrir tengsl, að tilheyra einhvers konar samfélagi. Þörf fyrir ást og viðurkenningu og að vera meðtekin.

Að verða að gera allt fullkomið er að einhverju leiti vani. Það sem maður getur vanið sig á getur mað vanið sig af.  Stundum er gagnlegt að leita svara við hvernig þessi tilhneyging þróaðist, festist í sessi og tók völdin. Kannske virtist fullkomnunaráráttan einhvern tíma lausn eða flóttaleið frá vanlíðan.

A.D. Souza sagði eitt sinn: „Lengi vel fannst mér alltaf að lífið væri rétt að byrja– þetta eina sanna líf. En það var alltaf eitthvað sem stóð í vegi fyrir því, eitthvað sem þurfti að yfirstíga fyrst... síðan myndi lífið byrja. Dag einn rann það upp fyrir mér að allar þessar hindranir voru lífið sjálft.“

Það er sælt að ná studentsprófinu og það er líka gaman að vera í menntó. Toppar eða markmið eru ekkert alltaf málið;  Það getur verið gaman að leika leikinn án þess endilega að skora mark!  Gangan upp fjallið er ekki bara afplánun og pína til þess að geta staðið á toppnum;Það er margs að njóta á leiðinni – líka þó maður fari ekki á alla leið upp!

Snýst ekki lífið um að vera „á leiðinni“, lenda í alls konar hæðum og lægðum, mótlæti og meðbyr  á lífsgöngunni?  Læra að lifa með sjálfum sér í fjölbreytilegum aðstæðum og  upplifa miserfiðar tilfinningar.  Taka verkefninum sem áskorun og tækifærum til að styrkjast og þroskast.  Gera sér námið í lífsins skóla að ögrandi leik.  Finna styrk sinn í  „að vita meira og meira – meira í dag enn í gær“.  Framfarir frekar en fullkomnun.

Leyfum okkur að vera verðug þó við séum ekki „búin að öllu“, eða „komin með þetta allt“!!

„Snilldin felst ekki í því að detta aldrei, heldur því að standa alltaf upp aftur" sagði meistarinn Confucius.

Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur