Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Á grundvell rannsókna á hollri hreyfingu ráðleggja heilbrigðisyfirvöld fullorðnu fólki að stunda líkamlega hreyfingu í hálfa til eina klukkustund daglega.
Náðuð þið að gera það sem þið ætluðuð ykkur í sumarfríinu? Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 5
LélegGóð 

Allt í einu eru skólarnir að byrja og haustið á næsta leiti. Mikið var þetta nú fljótt að líða. Já, hjá sumum leið sumarið mjög hratt og fyrir öðrum var það næstum heil eilífð og ætlaði engan endi að taka. Samt var þetta sama sumarið sem við upplifðum, við upplifðum það bara á mismunandi hátt.

Í sálfræðinni eru margar kenningar um það hvernig við upplifum hlutina ólíkt og sjáum þá frá mismunandi sjónarhornum. Margt af þessu er háð því hvernig okkur líður og hvað við höfum upplifað áður og ekki minnst hvaða væntingar við höfum.

Væntingarnar til sumarfríisins geta verið miklar, þá á allt að gerast. Það er heilmikið sem þarf að komast fyrir í einu sumarfríi. Ef við eigum fjölskyldu þá á hún að eyða tíma saman. Ef við eigum íbúð eða hús þá þarf að ditta að því eða jafnvel fara út í stórframkvæmdir. Við þurfum líka að gera eitthvað skemmtilegt, helst að fara eitthvað í ferðalag, stutt eða langt. Við þurfum líka að ná að slappa af og njóta tilverunnar eða hreinlega bara skemmta okkur á einn eða annan hátt. Við þurfum að lesa ólesnu bækurnar eða klára öll verkefnin sem við höfum byrjað á og ekki haft tíma til að gera neitt við í langan tíma. Það er margt sem við frestum fram á sumar því þá verður nógur tími til að gera hitt og þetta og allt saman. Glansmyndasumar!

Stundum verður veruleikinn allur annar og sumarfríið stendur alls ekki undir væntingum. Það er rigning þegar það ætti að vera sól. Maður er þreyttur þegar maður ætti að vera í fullu fjöri. Fjölskyldan er pirruð og örg þegar allir ættu að vera brosandi og glaðir. Það skrýtna er að oft heldur maður að sumarfríið hjá öllum hinum sé mikið betur heppnað en hjá manni sjálfum. Hinir virðast allir vera að gera eitthvað skemmtilegt og ef ekki skemmtilegt þá í það minnsta gagnlegt, þegar maður sjálfur kemur engu í verk.

Hvernig væri að prófa að líta á það að koma engu í verk frá öðru sjónarhorni? Hvað ef ég nú segi að það að gera ekki neitt geti oft verið það hollasta sem þið getið gert fyrir sjálf ykkur? Margir gera sér ekki grein fyrir því hvað það getur verið mikill streituvaldur að finnast maður þurfa stöðugt að vera að gera eitthvað. Fólk sem hefur verið að farast úr streitu hefur horft á mig stórum undrunaraugum þegar ég hef stungið upp á því að þau gerðu ekki neitt. Það er til dæmis það síðasta sem háskólanemum dettur í hug rétt fyrir próf en oft er það það besta í stöðunni að nota smátíma í að gera ekki neitt. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Það getur kyrrt hugann og slakað á líkamanum. Oftast er best að sitja eða liggja. Það þarf ekkert að hugsa um andardráttinn eða að tæma hugann. Mörgum finnst best að sitja með opin augu og glápa út í loftið. Það góða við að taka ákvörðun um að gera ekki neitt er að þá sleppur maður við að finnast maður ómögulegur ef maður getur ekki tæmt eða róað hugann eða stjórnað andardrættinum. Leikurinn var ekki til þess gerður að slaka á heldur er meiningin að gera ekkert.

Vonandi hafa sem flestir átt gott sumarfrí hvort sem þið náðuð að gera það sem þið ætluðuð ykkur eða ekki.

Þó að þið séuð ekki í fríi lengur hvet ég ykkur til að nota smátíma í að horfa út í loftið og gera ekki neitt.

 

Ásdís Herborg Ólafsdóttir, sálfræðingur