Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Regluleg hreyfing dregur almennt úr streitu, kvíða og þunglyndi, og bætir svefn.
Hversdagsleikinn án streitu Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 3
LélegGóð 

Hversdagsleikinn án streitu

Um þessar mundir eru margir að mæta til vinnu eftir sumarfrí. Fyrir marga eru fyrstu dagarnir í vinnu eftir frí erfiðir, þrátt fyrir að hafa átt gott sumarfrí með fjölskyldunni, góðar samverustundir, hlaðið batteríin og öðlast ró í sinni.

Margir kannast við vinnuna sem streituvaldandi þátt og fólk getur því upplifað streitu undir lok sumarfrísins aðeins við þá tilhugsun að fyrsta vinnuvikan sé framundan. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að bregðast við til þess að halda streitu einkennum í lágmarki og ná tökum á ástandinu.

Streita er ástand sem getur varað til skemmri eða lengri tíma. Streita til skemmri tíma getur virkað hvetjandi með þeim hætti að við leggjum harðara að okkur og erum líklegri til að ná settu marki. Sem dæmi um þetta má nefna að sumir vinna vel undir pressu, þá fyrst fara hjólin að snúast.

En langvarandi streita vinnur ekki með okkur á sama hátt heldur dregur úr frammistöðu okkar smám saman og hefur neikvæð áhrif á velferð okkar og heilsu. Einkenni streitu eru margvísleg, m.a. höfuðverkur, svimi, einbeitningarskortur, svefntruflanir, skapsveiflur. Það er einstaklingsbundið hve viðkvæm við erum fyrir streitu og álagi en mikilvægt er að fólk þekki líkama sinn vel og sé á varðbergi gagnvart streitueinkennum.

Til þess að koma í veg fyrir of mikið álag og til að halda streituvaldandi þáttum í lágmarki má gera ýmsar ráðstafanir áður er komið er til vinnu eftir sumarfrí. Gagnlegt er að nota síðustu dagana í fríinu til þess að koma rútínu á svefntíma og halda föstum svefntíma sem hentar vel. Regla á matartímum hjálpar líka til sem og dagleg hreyfing. Allt er þetta mikilvægt fyrir heilsuna og stuðlar að góðu andlegu jafnvægi.

Þegar komið er til vinnu að sumarfríi loknu er gott gefa sér tíma til að forgangsraða verkefnum sem bíða, gera raunhæfar áætlanir -  verkefnalistinn verður ekki unnin upp á fyrstu vikunni eftir fríið. Afar mikilvægt er einblína á settan vinnutíma og virða þann tímaramma, forðast yfirvinnu og óþarflega langa vinnudaga.

Nauðsynlegt er að taka sér hádegishlé, stuttur göngutúr í hádeginu getur gefið okkur mikið, og aukið afköst og bætt einbeitningu. Að grípa eitthvað fljótlegt í hádeginu og borða við skrifborðið og svara nokkrum tölvupóstum í leiðinni er ekki skynsamlegt, og slíkt er ekki líklegt til að auka afköstin og bæta frammistöðu

Gefum okkur tíma til að komast í gang, hægt og rólega án þess að allur dagurinn frá morgni til kvölds sé fullbókaður.  Frítíminn á ekki að vera þéttsetinn af skyldum og verkefnum sem jafnvel sátu á hakanum í fríinu. Ef við komum hlutunum ekki í verk í fríinu, þá þola þeir að öllum líkindum alveg smá bið til viðbótar.

 

Tíminn er ekkert að hlaupa frá okkur, við erum ekki með veröldina í lúkunum eða alheiminn á herðunum. Leyfum okkur að finna taktinn, þannig að okkur líði sem best og höldum jafnvægi. Þannig má ná tökum á hversdagleikanum og njóta okkar betur.