Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Reglubundin hreyfing bætir líðan og lífsgæði. Hreyfing liðkar og styrkir líkamann, eykur úthald og leiðir til framleiðslu vellíðunarhormónsins endorphine
Sumarið skellur á Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 6
LélegGóð 

Nú þegar sumarið er komið, svona samkvæmt dagatalinu, er ekki laust við að streitan aukist á mörgum heimilum. Væntingar um skemmtilegt sumarfrí og góðar samverustundir eru oft á tíðum miklar. Á sama tíma fer rútína vetrarins úr skorðum. Foreldrar fá yfirleitt ekki eins langt sumarfrí og börnin og það þarf að brúa það bil. Dagarnir eru lengri, svefntíminn skerðist og máltíðir fara oft úr skorðum. Meiri samvera kallar líka oft á meiri nálægð og það getur tekið á, eins gaman og það getur líka verið.

Eftirfarandi punktar geta hjálpað til við að gera þessa árstíð að jákvæðri upplifun:

Þetta er bara ein af fjórum árstíðum sem kemur árlega

Sumarið kemur og sumarið fer. Fyrir marga er þetta vinnuvertíð  og flestir vinna að einhverju leyti yfir sumartímann. Lífið heldur áfram sinn vanagang, fólk veikist, fæðist og deyr. Fólk skiptir um störf, flytur, skilur, upplifir ástina og ástarsorgina. Lífið fer ekki á pásu þó það sé komið sumar.

 

Rútína í rútínuleysinu

Það getur verið gott að losa um fasta rútínu vetrarins og það er hvíld fyrir flesta að þurfa ekki að rífa alla fjölskylduna á fætur kl. 6:30 virka morgna. En það er að sama skapi gott að snúa ekki sólarhringnum við.  Við höfum öll þörf fyrir ákveðinn ramma og stöðugleika. Það getur verið gagnlegt að  allir hafi eitthvað fyrir stafni, hvort sem það er vinna, leikur eða að sinna verkefnum heimavið.

 

Litlu augnablikin telja

Sumarfrí þarf ekki að vera stöðug flugeldasýning. Það er mikilvægast að njóta augnabliksins, hvort sem maður er heima við eða í draumaferðinni sinni. Ná að stoppa og vera meðvitaður um  að þetta augnablik er það sem það er og sjá fegurðina í því.

 

Það þarf ekki að gera allt

Það er oft mikið í boði og dagskráin getur verið fljót að fyllast. Við megum velja og hafna, það þarf ekki að endasendast  landshorna eða bæjarenda á milli til að taka þátt í öllu. Sumarfrí má einmitt vera frí, tími til að slaka á og gera ekkert.

 

Það getur verið krefjandi að vera alltaf saman

 

Það er mannlegt að verða þreyttur í aðstæðum sem eru öðruvísi en venjulega. Í rútínu vetrarins er fjölskyldan yfirleitt ekki saman allan sólarhringinn svo dögum eða jafnvel vikum skiptir eins og í sumarfríinu. Það er ekki ástæða til að fá sektarkennd eða finna fyrir skömm þó að þörf fyrir einveru í miðju fjölskyldufríi vakni. Líkur eru á að aðrir í fjölskyldunni hafi líka þessa þörf.  Það getur verið gott að fara ein/einn í göngutúr, skiptast á að eiga einstaklingsstundir á ströndinni eða við sundlaugina og fyrir pör að eiga notalega stund í einrúmi ef hægt er að koma því við.