Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Mikil streita á vinnustað getur tvöfaldað líkur á því að deyja af völdum hjartasjúkdóma.
Fæðingar, fagfólk og fjölskyldur Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 9
LélegGóð 

Nýverið gaf Landspítalinn út yfirlýsingu um nýtilkomnar reglur á sængurkvennadeild  varðandi það hversu margir geta verið viðstaddir fæðingar og takmarkanir á  heimsóknum tengdum þeim. Þessi ákvörðun er umdeild og sitt sýnist hverjum. Það að fólk lýsi yfir skoðun sinni á þessum málum er skiljanlegt því málefni tengd  barnsfæðingum snerta okkur flest á mjög persónulegan hátt. Án þess að ég hafi hugsað mér að taka afstöðu varðandi þessa ákvörðun þykir mér þetta gott  tilefni til að benda á mikilvæga þætti fyrir nýbakaða foreldra og fæðingar.

Meðganga og fæðing barns er í flestum fjölskyldum mjög spennandi tímabil uppgötvana og lærdóms. Á þessum tíma fer fólk í gegnum miklar breytingar á lífsháttum og sjálfsmynd sem eðlilegt er að valdi tilfinningalegu umróti. Því betur sem við sinnum nýbökuðum foreldrum, því líklegra er að þeim líði vel á þessum tíma, sem skilar sér í sterkari fjölskyldum.

Það hvernig konan upplifir fæðinguna hefur mikil áhrif á áframhaldandi líðan og einnig á næstu fæðingar. Hér er það upplifun konunnar á fæðingunni sem virðist skipta höfuðmáli og jafnvel meira máli en það hvernig fæðingin gekk fyrir sig.

Það sem hefur mikil áhrif á upplifun hennar er það hvort hún finni fyrir nægjanlegum stuðningi frá fagfólki sem annast hana í fæðingunni. Konur sem finna fyrir skilningi frá fagfólki gagnvart eigin viðhorfum, gildum og óskum, upplifa meiri stuðning en aðrar.

Enn fremur er það mjög mikilvægt að hún sé vel upplýst um ferlið og hvað sé að gerast og að hún sé höfð með í ráðum þegar því verður við komið. Á þann hátt upplifir hún að hún hafi sjálf einhverja stjórn á aðstæðum. Væntingar gagnvart fæðingarreynslunni spila líka þarna inn í og þess vegna er konum ráðlagt að undirbúa sig vel og skrifa niður fyrir fæðinguna hvað er mikilvægt fyrir þær.

Stuðningur frá maka hefur einnig áhrif á upplifun konunnar af fæðingunni. Það  hefur sýnt sig að sá stuðningur dregur úr streitu, sem aftur hefur áhrif á fæðingarferlið og minnkar líkur á inngripum í fæðingu og þörf fyrir verkjalyf.

Í samfélagi okkar er yfirleitt litið á barnsfæðingar sem mjög gleðilegan atburð sem við flest viljum vera þátttakendur í. Á þessum tíma vilja aðstandendur mjög gjarnan fá að hitta hinn nýja fjölskyldumeðlim og fagna fæðingu hans. Þetta er jákvætt og foreldrum sem fá stuðning gengur betur að fóta sig í móður- og föðurhlutverkinu.

Hins vegar á það sama við hérna og um fæðingarreynsluna sjálfa.  Til þess að stuðningurinn nýtist sem skyldi verða aðstandendur að taka tillit til óska foreldranna. Kona sem er að jafna sig eftir fæðingu og hefja brjóstagjöf verður að fá að segja til um það hverja hún er tilbúin til að hitta fyrst á eftir og hvernig hlutunum skuli háttað. Það er mikilvægt að hún upplifi ekki að ráðin séu tekin af henni og að henni verði að líða á einhvern ákveðinn hátt. Sumar konur á þessum tíma hafa þörf fyrir að hafa margt fólk í kringum sig og fá mikla aðstoð með umönnun barnsins en aðrar ekki. Þetta á við um fyrstu vikurnar og jafnvel mánuðina eftir fæðingu. Aðstandendur gætu því stutt mikið við hinn nýja fjölskyldumeðlim með því að spyrja foreldrana hvernig stuðningur þeirra nýtist sem best á þessum tíma.

Þetta reynir oft á tíðum einnig mikið á foreldrana og mikilvægt er að þau séu dugleg  að tjá þarfir sínar gagnvart hvort öðru. Það er nauðsynlegt að þau séu búin að ræða þessa hluti áður en kemur að fæðingu. Það kemur oft í veg fyrir mikinn misskilning og vonbrigði sem síðar getur haft frekari áhrif á samband þeirra.

Rannsóknir sýna okkur að það skiptir sköpum ef foreldrar fá þann stuðning sem þau þurfa á að halda í fæðingum og við umönnun barns. Það hjálpar þeim í hlutverkum sínum og við að byggja upp fjölskyldu. Það er því mín skoðun að samfélagið í heild, fagfólk, stofnanir og fjölskyldur verði að hjálpast að við að gera fæðingarreynslu foreldra eins ánægjulega og hægt er og styðja við það mikilvæga ferli sem fæðingarreynsla og tengslamyndun er.

 

Harpa Eysteinsdóttir, sálfræðingur