Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Mikil streita á vinnustað getur tvöfaldað líkur á því að deyja af völdum hjartasjúkdóma.
Á ég að leyfa því að fara í taugarnar á mér? Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 9
LélegGóð 

Veðurfarið hefur reynt á þolrif landans: „“Ég er alveg að gefast upp á þessu“ - „Þetta er gersamlega óþolandi“ eru algeng viðbrögð. En eru veðrabrigðin ekki bara eins og lóðin í ræktinni – kjörin til að styrkja okkur? Tækifæri til að æfa og styrkja hugann í að sjá fleiri, kannske bjartari hliðar og þannig frelsa okkur frá ergelsi. Með æfingunni verðum við leiknari í að ráða eigin viðbrögðum og líðan í alls konar aðstæðum.

Okkur hættir stundum til að ýkja það neikvæða og einnig að taka persónulega því sem hefur ekkert með okkur að gera;Gat nú verið! Ég í fríi og þá er brjálað veður” Þarna væri ég að gera mig að miðpunkti sem veðurguðirnir fylgjast náið með!

Galileó heyrðist tauta  “Hún snýst nú samt” þegar hann gekk frá rannsóknarrétti kirkjunnar í Róm, þar sem hann varð að bjarga lífi sínu með því að afneita eigin niðurstöðu um að jörðin væri ein af mörgum reikistjörnum sem snérist í kring um þá stóru gulu; Umheimurinn var ekki tilbúinn að láta af þeirri sjálfmiðun að jörðin væri miðja alheimsins sem allt annað snérist um.

Þannig verðum við mannfólkið stundum í vanlíðan; á vissan hátt frumstæðari, og okkur hættir til að einfalda hlutina í svart-hvítt. Jafnframt verðum við þröngsýnni og sjálfmiðaðri; Ég sé tvo tala saman og hugsa  “Þeir eru örugglega að tala um mig”.

Börn eru oft krúttlega sjálfmiðuð eins og drengurinn sem missti hundinn sinn. Voffi varð fyrir bíl og fór upp til guðs. Nokkru síðar gengu hann og yngri frændi hans fram á dauðan fugl og sá litli hryllti sig og sagði “Af hverju tekur guð hann ekki?” En hinn sagði “Oh, þú ert svo vitlaus - hann er með hundinn minn núna!”

Tveir menn ganga sömu ströndina og annar uplifir flott mynstur í ósnortnum sandinum eftir útfallið, en hinn fnykinn af frárennsli úr fjósi bænda sem leitt er niður á fjörukambinn. Sumir sjá glasið hálffullt en aðrir hálftómt. Við festumst stundum í vítahring vanlíðunar; neikvæðum hugsunum sem leiða til vanlíðunar og vanlíðan eykur líkur á neikvæðum hugsunum. Pirringur, kannske mest við sjálfan sig, breytir eigin líðan til verri vegar en litlu um ástandið. Erfið staða

Æðruleysisbænin talar um sáttina við það sem fæst ekki breytt, kjarkinn til að breyta því sem hægt er að breyta og vitið til að greina þar á milli. Við ráðum oft ekki aðstæðunum - hvaða spil við fáum á hendur, en heilmiklu um það hvernig við spilum úr þeim. Væri gott að verða aldrei fyrir mótlæti? Væri gott að alltaf væri sumar og sól? Ef svarið er „já“, þá kannske velur þú að flytja til Spánar. Góður vinur minn rifjaði upp viðbrögð sín sem barn við því að til væru lönd þar sem alltaf væri sumar: "Hefur aumingja fólkið þá ekkert vor sem það getur hlakkað til"? Það er yndislegt að sjá fyrsta græna sprotann og heyra í lóunni eftir langan vetur, ekki satt?

Er ekki farsælast að sníða sér stakk eftir vexti og velja hlífðarföt eftir veðri; að styrkjast, ögra sér, aðlagast og njóta þess að upplifa fjölbreytilegar aðstæður - andstreymi jafnt sem meðbyr?  Það eru jú ekki aðstæðurnar, heldur hvernig við bregðumst við þeim sem ráða mestu um líðan okkar. Við höfum oft meira val en við höldum.

Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur