Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Reglubundin hreyfing bætir líðan og lífsgæði. Hreyfing liðkar og styrkir líkamann, eykur úthald og leiðir til framleiðslu vellíðunarhormónsins endorphine
Að tileinka sér heilsusamlegar lífsvenjur Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 3
LélegGóð 

Í byrjun nýs árs er algengt að fólk taki upp hollari lífshætti og setji sér ýmis markmið. Markmið tengd matarræði og hreyfingu eru oft mjög áberandi. Heilsan er okkur öllum mikilvæg, en hvernig metum við hana? Berum við virðingu fyrir heilsu okkar, sjálfum okkur, þörfum okkar og óskum? Að rækta heilsuna er ekki eitthvað sem á að gera einungis á ákveðnum tíma árs, eða til skemmri tíma. Það er verkefni sem okkur ber að sinna vel allt okkar líf.

Mikilvægt er að bera virðingu fyrir sjálfum sér, þeim kostum og hæfileikum sem við búum yfir, hæfni okkar og möguleikum til að öðlast nýja þekkingu og færni, takmarkanir okkar og veiku hliðar. Sjálfsvirðing felur í sér að lifa í sátt með sjálfan sig og það líf sem við lifum, finna fyrir stolti yfir eiginleikum og öllu því góða sem við búum yfir.  Þegar við njótum sjálfsvirðingar höfum við trú á gildi okkar og sannfæringu sem hefur reynst okkur vel. Nauðsynlegt er að skapa sér heilbrigðar og skynsamar reglur og venjur í daglegu lífi, t.d. hvað varðar mataræði og hreyfingu, og eins í félagslegum aðstæðum, í samskiptum við aðra og í samveru með vinum og fjölskyldu. Slíkar venjur sem eru í samræmi við okkar gildi og sannfæringu eru mun líklegri til að verða að mikilvægum og föstum lið í tilveru okkar. Þannig fáum við þá fyllingu í hversdagsleikann sem við óskum eftir og stuðlum þannig að góðri heilsu og bættri líðan.

Það er stórt skref að tileinka sér nýjar og betri lífsvenjur. Það krefst meðal annars viljastyrks, kjarks, þrautseigju, þolinmæðis og einnig stuðnings og skilning frá nánustu fjölskyldu og vinum. Sterkasti og mikilvægasti þátturinn í þessu er að nýju lífsvenjurnar samræmist þeim gildum og viðmiðum sem við þegar höfum tileinkað okkur á lífsleiðinni. Öll höfum við okkar grunngildi sem við lifum eftir dag frá degi, til dæmis, kurteisi og góða umgengni. Gildin segja til um hvað okkur finnst mikilvægt í lífinu, og segja mikið um persónu okkar, hvaða leikreglur við höfum skapað okkur og förum eftir dagsdaglega.

Áður en farið er af stað í breytingar á lífsvenjum, er mikilvægt að átta sig á því hvaða væntingar höfum við til breytinganna, hvað eiga þær að gefa okkur. Hugsanlega eru einhverjar hindranir í vegi okkar eins og streita, kvíði eða vanlíðan sem við þurfum að vinna bug á svo við náum ætluðum árangri og eins til að viðhalda náðum árangri.

Tileinkum okkur venjur sem samræmast gildum okkar, þörfum og því sem okkur er mikilvægt í lífinu. Höfum skýrar og raunhæfar væntingar, sköpum okkur nýjar venjur sem við unum vel og gagnast okkur dag frá degi við að ná markmiðum okkar sem stuðla að góðri heilsu og bættri líðan.

Kristín Leifsdóttir sálfræðingur