Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Flestir þeir sem þjást af þunglyndi fá ekki viðeigandi meðferð, annað hvort vegna þess að þeir leita sér ekki hjálpar eða vegna þess að vandamálið er ekki meðhöndlað með réttum hætti af þeim sem leitað er til.
Hefur streita áhrif á samband þitt við maka? Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 11
LélegGóð 

Það er margt í okkar daglega lífi sem getur valdið streitu. Misjafnt er hvernig streita hefur áhrif á okkur og hvernig við vinnum úr henni. En hvernig hefur streita áhrif á samband okkar við maka? Það er margt sem getur ýtt undir streitueinkenni í sambandi, t.d. fjármál, uppeldi barna, vinna, ólík markmið maka, ekki nægur stuðningur frá maka, lítið hrós o.fl. Þegar við finnum fyrir mikilli streitu sem varir í langan tíma getur það haft slæm áhrif á heilsu okkar og einnig á samband okkar við maka.

Nauðsynlegt er að pör geri sér grein fyrir því hvernig streita getur haft áhrif á samband þeirra. Þar sem ekki er hægt að koma í veg fyrir streitu þá þurfum við að vita hvernig hægt er að takast á við hana á áhrifaríkan hátt. Mikilvægt er að finna leiðir sem henta báðum aðilum til þess að takast á við streitu. Ein áhrifarík leið er að vera hreinskilin við hvort annað. Ræðið saman um það sem veldur ykkur streitu og hvernig streita hefur áhrif á ykkur. Maki getur aðstoðað og veitt skilning sem á þarf að halda. Það þarf ekki alltaf að finna lausn á vandanum heldur getur það eitt að vera til staðar veitt fólki mikinn styrk. Önnur áhrifarík leið er að viðhalda nánd í sambandinu. Pör eiga það til að forðast nánd þegar þau ganga í gegnum mikið streitu tímabil vegna þess að þau eru of þreytt eða orðin tilfinningalega úrvinda. Lítil nánd getur haft mjög slæm áhrif á sambandið. Með því að sýna hvort öðru nánd þá hjálpum við til að losa um streitu og kvíða sem hefur síðan jákvæð áhrif á líðan okkar. Nánd felur ekki aðeins í sér kynlíf heldur er margt annað sem fellur þar undir. Að deila tilfinningum og hugsunum sínum með öðrum getur verið vandræðalegt en með því sköpum við tilfinningalega nánd. Þriðja áhrifaríka leiðin er að viðhalda jafnvægi í því hvernig við verjum tíma okkar. Það er auðvelt að gleyma sér í mörgum viðburðum sem við höfum í raun ekki tíma fyrir eða að verja of miklum tíma í vinnunni. Slíkt ójafnvægi getur valdið streitu í sambandi okkar. Því er mikilvægt að vanda valið þegar við verjum tíma okkar. Hvað er það sem skiptir okkur mestu máli?

Mikilvægt er að huga að þessu í dag þegar jólahátíðin er að skella á. Fyrir marga geta jólin verið mikill streituvaldur og þá er mikilvægt að vera til staðar fyrir hvort annað. Sýnum tillitssemi, verum hreinskilin og umfram allt sýnum hvort öðru hlýju og skilning.

Ólöf Edda Guðjónsdóttir sálfræðingur

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 22.12.2014