Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Mörg verkalýðsfélög styrkja félagsmenn sína til að sækja meðferð hjá sálfræðingi.
Hugum að sálinni í skammdeginu Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 2
LélegGóð 

Öll getum við fundið fyrir depurð og leiða, hvenær sem er á lífsleiðinni. Skammdegið þekkjum við vel, en á þessum árstíma finna margir fyrir meiri depurð, þreytu, framtaksleysi, einbeitningarskorti og áhugaleysi. Mikilvægt er að átta sig á því hvenær er þörf á því að leita sér aðstoðar og nauðsynlegt er að hafa hugfast að þunglyndi er ekki eitthvert slen sem fólk þarf bara að hrista af sér. Fólk sem glímir við þunglyndi mætir oft litlum skilningi í samfélaginu og jafnvel hjá nánustu vinum og ættingjum. Fólk upplifir oft mikla skömm og getur því átt erfitt með að tala opinskátt um líðan sína við sína nánustu. En þunglyndi er sjúkdómur sem hægt er að vinna bug á og mikilvægt er að leita sér aðstoðar sem fyrst.

Þunglyndi hefur víðtæk áhrif á daglegt líf og skerðir lífsgæði til muna. Fólk upplifir mikla vanlíðan, vanmátt, kvíða og skömm, svefn- og matarvenjur raskast. Atburðir og hlutir í daglegu lífi sem venjulega skapa gleði og hamingju, eins og faðmlag frá barninu sínu, eða að heyra uppáhaldslagið sitt í útvarpinu á leiðinni til vinnu, kalla ekki lengur fram þessar tilfinningar hjá viðkomandi. Fólk upplifir mikið tómarúm og vanmátt, og hefur ekki lengur tök á að lifa sínu daglega lífi á þann hátt sem það hefur áður gert, og hefur reynst vel.

Fyrir þá sem glíma við þunglyndi er mikilvægt að leita sér aðstoðar sem fyrst. Það skiptir miklu máli að vinna bug á sjúkdómnum og draga úr einkennunum. Að tala opinskátt um líðan sína og tilfinningar, átta sig á einkennum og áhrifum þeirra á daglegt líf er stórt og mikilvægt skref í bataferlinu. Með tímanum öðlast fólk skilning og innsýn í það mynstur hugsana, tilfinninga og hegðunar sem hefur verið ríkjandi. Þetta mynstur er nauðsynlegt að brjóta upp og á saman tíma tileinka sér nýja kunnáttu og færni til að takast á við sjúkdóminn. Þessi vinna getur verið krefjandi og mörgum kann að þykja hún tímafrek. En árangurinn af þessari vinnu er svo dýrmætur því hann skilar sér í bata, bættri líðan og meira jafnvægi og gerir það að verkum að viðkomandi þekkir betur sinn sjúkdóm og verður betur meðvitaður um einkenni og áhrif sjúkdómsins.

Ekki má gleyma mikilvægi þess að viðhalda batanum, en viðkomandi verður einnig  mun betur í stakk búinn til að bregðast við fljótt ef til þess kæmi að sjúkdómurinn versni eða komi upp að nýju.

Hlúum vel að líðan okkar, því sú vinna sem við leggjum á okkur til að öðlast betri líðan er gríðarlega mikilvæg og dýrmæt. Að þeim ávinningi munum við ávallt búa.

Kristín Ósk Leifsdóttir sálfræðingur Heilsustöðinni

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 10. nóvember 2014