Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Hollt mataræði felur í sér fjölbreytt fæðuval, reglubundnar máltíðir, hæfilegar skammtastærðir og almenna hófsemi
Hvað tekur nú við? Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 2
LélegGóð 

Þrátt fyrir langþráða sólardaga á höfuðborgarsvæðinu síðastliðna viku þá finnum við að það styttist í haustið. Fyrir flesta þýða árstíðarskipti ákveðin kaflaskil eða breytingar. Annað hvort hefst eitthvað nýtt eða gamalkunnur hversdagsleikinn tekur við. Sumir kvíða breytingunum sem framundan eru en aðrir eru fullir tilhlökkunar og byrjaðir að huga að dagskrá vetrarins með fögrum fyrirheitum, skipulagshugmyndum og spenningi.

Breytingar eru oft erfiðar, hvort sem eitthvað nýtt bíður eða gamlar venjur hversdagsins taka við af kæruleysislegum takti sumarsins. Árstíðaskipti með yfirvofandi breytingum eru oft á tíðum frjósamur jarðvegur streitu og jafnvel kvíða eða depurðar. Sumir kvíða skammdeginu, aðrir kvíða nýju námi eða starfi og enn aðrir hafa áhyggjur af kunnuglegum hversdagsleika. Margir eru óvissir og óöruggir, vita ekki alveg hvað næsta árstíð hefur í för með sér, hafa áhyggjur af að þessi vetur verði erfiður, vita ekki alveg hver staðan verður, hvar þeir muni verða staddir.

Það sem mikilvægast er að veita athygli er að þessar áhyggjur tengjast einhverju sem er ekki komið enn þá. Sumarið er ekki liðið og haustið er ekki komið. Hugsanir um það sem framundan er geta verið gagnlegar ef þær hvetja okkur til að finna lausnir, sjá fyrir vandamál og greiða úr þeim með skynsömum hætti en þess konar hugsanir eru ekki áhyggjur. Áhyggjur af því sem hugsanlega getur orðið eru eðlilegar en ekki hjálplegar. Að sitja fastur í áhyggjum af því sem gæti orðið er svipað því að sitja í áralausum báti á hafi úti, báti sem flýtur stefnulaust um.

Hvernig væri að staldra við þessa síðustu sumardaga og njóta þeirra, óháð því hvað muni taka við þegar haustið kemur. Raunverulega staldra við og taka eftir umhverfinu. Taka eftir gróðrinum sem er enn þá í blóma, finna lyktina af nýslegnu grasinu, fylgjast með stórkostlegum dansi himinsins í ljósaskiptunum, bragða á ljúffengum berjunum í móunum og ganga berfættur í grasinu. Staldra við og taka eftir fólkinu í kringum okkur. Hvort sem við þekkjum þau eða ekki, óháð því hvaða tilfinningar við berum til þeirra. Taka eftir því hvernig þau tala, hlæja, snertast, hafa samskipti. Taka eftir því hvernig okkur líður, hvaða augnablika við njótum.

Hvað sem næstu árstíðarskipti hafa í för með sér, reyndu að staldra við og taka vel eftir. Þá geturðu fangað augnablikið og notið þess.

Bryndís Einarsdóttir sálfræðingur