Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Regluleg hreyfing dregur almennt úr streitu, kvíða og þunglyndi, og bætir svefn.
Hvernig sýnum við þakklæti? Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 3
LélegGóð 

Þakklæti er mikilvægt í okkar daglega lífi en þrátt fyrir það virðumst við oft gleyma að sýna það. Afhverju er það? Sumum finnst óþægilegt að sýna þakklæti og aðrir vita ekki hvernig þeir eiga að sýna það. Þetta á ekki síður við í samböndum. Pör gleyma oft að sýna hvort öðru þakklæti og byrja að taka verkum maka sem sjálfsögðum hlut. Við sýnum maka okkar að við kunnum að meta hann með því að veita þeim verkum sem hann framkvæmir athygli. Með því móti eykst vinskapur og kærleikur en einnig traust sem er einn af lykilþáttum í heilbrigðu sambandi. Stóra spurningin er því hvernig sýnum við þakklæti?

Við getum gert það með orðum eins og takk fyrir að vera til staðar fyrir mig þegar ég þarfnast þín eða takk fyrir að henda ruslinu. Við getum gert það í verki, með því að taka utan um maka okkar, kyssa eða brosa til hans. Með því að sýna áhuga, þegar maki er að segja frá sínum áhugamálum, draumum og markmiðum. Á sama tíma er mikilvægt að veita virka hlustun og umorða það sem maki er að segja. Þetta vill oft gleymast vegna þreytu eða þinna áhugamála sem þú vilt frekar sinna. Með því að taka frá tíma fyrir hvort annað getur parið sett sér markmið í lok hvers dags og rætt um það sem gerst hefur yfir daginn. Með því að halda upp á stór eða lítil tilefni eins og þegar við fögnum nýrri vinnu, áfanga eða ákveðnu takmarki með maka okkar erum við að sýna að við kunnum að meta það sem hann hefur lagt á sig. Við getum gefið okkur tíma til þess að kynnast hvort öðru, með því að spyrja spurninga sem við erum ekki vön að spyrja t.d. hver er besta æskuminningin þín? uppáhalds mynd? besti matur? eða uppáhalds bók? Þannig sýnum við að ánægja maka okkar er okkur mikilvæg og að sambandið er sett í forgang.

Mikilvægt er að muna að þakklæti er hægt að sýna á ýmsa vegu og það sem virkar fyrir eitt par þarf ekki endilega að virka fyrir annað. Hver og einn sýnir þakklæti á mismunandi hátt og um að gera að prófa nýja hluti. Annað sem mikilvægt er að muna er að maki okkar getur ekki lesið hugsanir ef við viljum að hann segi eitthvað ákveðið eða geri eitthvað ákveðið þá verðum við að segja það.

Ólöf Edda Guðjónsdóttir sálfræðingur

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 06.10.2014