Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Mjög miklar líkur eru á bata þegar fólk sem þjáist af þunglyndi sækir gagnreynda sálfræðilega meðferð hjá sálfræðingi.
Stofnum bandalag frestara……. á morgun! Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 8
LélegGóð 

Við mannfólkið sláum oft hlutunum á frest. Við finnum okkur ýmislegt til dundurs frekar en að skrifa ritgerðina, panta tíma hjá lækninum, gera skattaskýrsluna o.s.frv. Gerum frekar það sem er skemmtilegra eða minni áreynsla og höfum fyrirsláttinn á reiðum höndum. Við ætlum að gera hitt seinna og lendum svo í tímaþröng og  veseni. Fyrst að lesa póstinn, fara aðeins  á netið, gá hvað er að gerast á facebook. Ups! dagurinn bara hvarf!

Að ákveða að gera seinna er ekki vont í sjálfu sér, ef fyrir því er skynsamleg ástæða. En oft vinnur frestun  gegn manni;  veldur stressi, sektarkennd, dregur úr afköstum og getur haft slæm áhrif á samskipti og framgöngu okkar í vinnu, skóla og lífinu almennt.

Af hverju gerum við þetta? Er þetta óttinn um að standa sig ekki nógu vel? Verkefnið er yfirþyrmandi; “þetta er svo mikið og ég verð að gera það fullkomið”. Trúin á að maður vinni best undir pressu;  Er það kannske bara ein undankomuleiðin frá verkefninu?

Sókn í vellíðan á trúlega drjúgan þátt í frestun; við forðumst neikvæða líðan og ýtum frá okkur erfiði. Gott til skamms tíma en verra seinna. Úr vanlíðan yfir í vellíðan strax. Frestun endurspeglar eðlislæga sókn lífverunnar í að líða vel núna, bregðast við aðstæðum hér og nú fremur en til lengri tíma.

Getum við hugsað það til enda ef eðli okkar væri ekki slíkt; að sækja úr van- yfir í vellíðan? Ber okkur ekki að virða og meta eiginleika okkar og eðli - vera þakklát fyrir það sem við höfum og erum? Við erum mannleg en ekki vélmenni. Við erum mistæk, gerum ekki alltaf alla hluti vel, en reynum oftast að gera okkar besta. Við höfum einnig kostinn góða -  sveigjanleika. Tölvan frestar ekki, hún er óskeikul en einnig ósveigjanleg. Hún  framkvæmir nákvæmlega það sem hún er beðin um eða  er frosin eða biluð og gerir ekkert; um hana má gilda “fullkomið eða ekki neitt”!

Jú, oft drögum við verkið fram á síðustu stundu, en kýlum svo á það og klárum “nógu snemma” - Er það þá ekki bara allt í lagi? Kannske stress, en líka ögrandi! Næ ég þessu?  Nútíminn gefur okkur meira val um hvernig við verjum tíma okkar. Á tímum erfiðrar lífsbaráttu var það dyggð “að falla aldrei verk úr hendi”, en tölum við ekki núna um það sem vandamál að vera “vinnualki”?

Okkur er líka hollt að hvíla stundum hug og hönd og dunda okkur. Sem leiðir hugann að Bangsimon og félögum; Jakob þótti skemmtilegast að gera “ekkert” og Bangsimon spurði á sinn einstaka hátt; “Nú, hvernig gerir maður það?” Jakob svarar; “Það er svoleiðis að fullorðna fólkið spyr “Hvað ertu að fara gera?” og þú segir “Ekkert” og svo ferðu bara og gerir það”!

Ef reynslan kennir okkur að “gott strax en verra seinna” (fá dótið núna -  borga seinna) sé ekki alltaf þess virði, þá lærum við að það virkar oft vel að fresta ánægjunni og uppskera ríkulega síðar.  Njótum þess að vita til þess að eitthvað sé á leiðinni til okkar. Erum við þá ekki komin með “Gott strax og gott seinna”?  Eftirvænting er notaleg tilfinning; mun betri en sú sem fylgir; “Oh, að ég skuli ekki vera komin með…”

Í raun er þetta spurning um val: þú ákveður hvað þú vilt vera og gera.

Sýnum sjálfum okkur umburðarlyndi og skilning, þegar við viljum frekar fara niðurí mót en upp; Brekkan er kannske brött, en er hún ekki bara ögrandi og greiðfær í áföngum? Ýtum til hliðar “æi, ég geri þetta seinna”. Byrjum samt og uppgjafartilfinningin mun víkja. Höfum í huga ávinningin til lengri tíma.

Sjálfstal okkar hefur vægi; Ef við veljum að segja “mig langar” og “ég vil” fremur en “ég verð” eða “ég ætti.” þá gerum við verkefnin að vali en ekki kvöð. Nálgumst verkefnin ekki með viðhorfinu “ég neyðist víst til að..”  - Höfum frekar á hugarskjánum “þetta er verk sem ég vil sinna”, “gott ég er byrjaður” og jafnvel gamla góða  “hálfnað er verk þá hafið er”!

Við verðum ekkert endilega, en ef við veljum eða okkur langar;  - að halda vinnunni, læra fagið, ná áfanganum, þroskast og styrkjast, þá er þetta leiðin.  Við getum líka sáð fræjunum EF, SEINNA eða ÞEGAR og uppskorið EKKERT. Það er val en viljum við það? Kannske stundum, en ekki alltaf!

Heiðdís Sigurðardóttir, sálfræðingur

Þessi pistill birtist í styttri útgáfu í Morgunblaðinu mánudaginn 1. september 2014