Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Sálfræðilegur stuðningur og meðferð getur hjálpað sjúklingum, fjölskyldu og ástvinum að aðlagast lífi með alvarlegum sjúkdómum.
Jafnvægið á mill of og van Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 1
LélegGóð 

Okkur er eðlislægt að næra okkur í takt við matarlyst og tilfinningarnar svengd og seddu. Borða þegar við erum svöng, hætta þegar södd, venjulega svöng á reglulegum matmálstímum. En í átröskun, sem einkennist af viðvarandi munstri vanáts eða ofáts, eða sveiflum þar á milli, er oftar borðað af öðrum ástæðum en til að næra sig. Borðað/eða ekki borðað til að móta líkamann, leita huggunar eða ánægju, kannske deyfa sárar tilfinningar. Formerkjunum er oft snúið við; það er gott að vera svangur og vont að vera saddur. Át oft stýrt af viljastyrk, megrunarkúr, hitaeiningatalningu, eða ytri aðstæðum. Borða lítið og brenna af því það voru páskar í gær eða ferming á morgun.

Verða villt dýr feit, þó að til sé ofgnótt fæðu? Hundurinn borðar ekki bara af þörfinni “tankurinn er tómur“ heldur fær hann vatn í munninn við fótatak póstsins því það þýðir „næ í blaðið, fæ kex“. Fá ekki húsdýrin mat þegar okkur hentar?

Okkur langar í nammi í bíó, þó við séum nýbúin með kvöldmatinn. Lítill kútur kemur grátandi inn og fær „svona nú, ekkert væl – komdu og fáðu þér pönnuköku“. Stafaði vanlíðan stráksa af leiða og þörf fyrir samúð, fremur en pönnukökuskorti?

Burtséð frá því hvað veldur því, að ákveðið „order“ fær forskeytið „dis“, að ákveðið jafnvægi verður að röskun, þá er jafnvægisleit líkamans aðdáunarverð. Hann bregst við til að lágmarka skaðann og verjast áföllum: Viðbrögð við megrun/svelti er að lækka brennslu; Blæðingar hætta og líkaminn sparar sér þannig þá orku sem annars færi í að útbúa mánaðarlega egg og „hreiður“; Upptekni af mat stóreykst „með mat á heilanum“ sem ætti að auka líkurnar á að lífveran finni og neyti matar. Sálfsaginn reynir þó að „halda stjórn“.

Einsettu þér að sofa bara 4 tíma á sólarhring, svo kannske bregst klukkan og þú sefur 12 tíma. Er það vítaverð svefn-græðgi?

Við erum oft að leita að lausn á vanlíðan þar sem hana er alls ekki að finna. Enda er vellíðanin oft skammvinn. Að teknu tilliti til þess misræmis sem er á milli þess sem nútíminn bíður uppá og þess sem við höfum þörf fyrir, er kannske aðdáunarvert að við séum ekki „átraskaðri“ en raun ber vitni. Eitt dæmi eru sætindin fyrr og nú: Við höfum bragðlauka sem kunna vel að meta sætt, sem í umhverfi frummannsins voru ávextir, ber og blómknoppar; oft litríkir og vöktu athygli. Yfirleitt orkulítið, en uppfullt af nauðsynlegum næringarefnum - vítamínum, steinefnum. Nútíminn bíður hins vegar uppá ofgnótt af sætri, aðlaðandi, mjög orkuríkri en næringarsnauðri fæðu. Orka langt umfram þörf nútímannsins. Matvæli sem uppfylla frekar þarfir þeirra sem framleiða og selja. Það er auðvelt í asa nútímans að falla fyrir gylliboðunum „einfalt, fljótlegt, hátt geymsluþol“ og erfitt að fóta sig í stórgrýti villandi skilaboða um hvað sé gott fyrir okkur og hvað ekki. Hávær ytri boð yfirgnæfa oft skilaboð líkamans.

Það er dapurt og mikils misst ef að þess að njóta er ýtt til hliðar af sektarkennd og skömm yfir að hafa brotið einhver boð og bönn. Streita í kringum mat getur verið óhollari en það sem við erum að borða.

Er þetta tal um jafnvægi, fjölbreytni og að hlusta á okkar innri visku og þarfir líkamans, ekki bara enn eitt „gerðu þetta, ekki hitt“? Sennilega er betra að gleypa það ekki hrátt eða ómelt. Veltu þessu fyrir þér og finndu hvernig þér verður af því. Kannske fer það illa í þig – þú jafnvel með ofnæmi! Etv hefur þú ekki lyst núna, en hentar þér betur seinna. Nýttu og njóttu þess sem þér hentar og verði þér að góðu!

Heiðdís Sigurðardóttir, sálfræðingur

Þessi pistill birtist í styttri útgáfu í Morgunblaðinu mánudaginn 28. apríl 2014