Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Það að horfa á stjónvarp í svefnherberginu eykur líkur á svefnerfiðleikum og svefnleysi.
Hvernig hljómar þín innri rödd? Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 14
LélegGóð 

Allir hafa rödd hvort sem þeir tala til sín upphátt eða í hljóði. Þessi rödd er í raun hugsanir okkar sem  aðstoða okkur við að vega og meta

Anna Sigurðardóttir sálfræðingur

það sem við upplifum og við að álykta hvað sé best að gera í kjölfarið. Það fer eftir hugarástandi okkar og skapi hverju sinni hvort hugsanir okkar eru jákvæðar eða neikvæðar. Þegar okkur líður vel, erum glöð eða sátt, eru hugsanirnar jákvæðar en þegar okkur líður illa, erum reið, kvíðin eða döpur, eru hugsanir okkar oft neikvæðar.

Það getur hljómað undarlega að við skulum vera neikvæð í eigin garð þegar við þurfum mest á jákvæðni og stuðningi að halda. Samt sem áður virðast flestir temja sér að takast á við vandamál eða vanlíðan með sjálfsgagnrýni. Í raun er helsta markmið sjálfsgagnrýninnar að forða okkur frá frekari ógn og vanlíðan. Niðurbrjótandi hugsanir eiga því að hvetja okkur áfram til að gera betur svo við endum ekki með það sem við óttumst mest, eins og að vera hafnað eða að líða eins og við séum einskis virði. Neikvæðu hugsanirnar hvetja okkur áfram með hræðsluáróðri og hótunum eins og ,,ég verð að standa mig 100% í öllum verkefnum annars missi ég vinnuna”, ,,ég gæti sagt einhverja vitleysu, svo það er best ég þegi". Ef þessi hvatning virkar ekki þá verður innri rödd okkar enn gagnrýnni og dæmandi ,,mér tekst þetta aldrei”, ,,ég er ömurleg/ur”.

Hver er gagnsemi sjálfsgagnrýninnar?

Margir óttast að hætta að hlusta á sína neikvæðu innri rödd þar sem þeir telja að án hennar verði þeir metnaðarlausir og leggi sig síður fram. Þeir telja að neikvæða röddin haldi þeim á tánum svo þeir geri örugglega sitt besta. Því getur verið erfitt að ætla sér að hunsa eða sleppa takinu af neikvæðu röddinni. Ímyndum okkur að þessi innri rödd sé eins og vinur sem kemur í heimsókn á erfiðum tímum. Ef þessi vinur er alltaf neikvæður og gagnrýninn, er hann þá vinur í raun? Viljum við eiga vin sem veldur því að við förum að forðast verkefni og fólk? Viljum við eiga vinskap sem eykur líkur á að við þróum með okkur brotna sjálfsmynd, þunglyndi og kvíða?

Hvernig get ég eignast betri vin?

Því miður eigum við flest svona vin, neikvæðar hugsanir í eigin garð. Það sem margir átta sig ekki á er að það er hægt að velja að vera í samskiptum við mun betri vin. Að skipta vinunum út er kannski ekki eins einfalt og það hljómar en meðaðstoð sálfræðings er hægt að læra að tileinka sér uppbyggilegri hugsanir og hvatningu. Að þróa með sér innri rödd sem leiðbeinir manni ákveðið en mildilega til að læra af mistökum, finna lausnir og gera betur. Rödd sem er hvetjandi og veitir stuðning þegar eitthvað bjátar á. Innri rödd sem aðstoðar við að horfa raunsætt á aðstæður. Þín innri rödd verður því góður vinur sem þú getur treyst á og stuðlar að auknu hugrekki svo þú getir tekist á við erfiðar áskoranir og upplifað sjálfstraust og sjálfsöryggi.

Anna Sigurðardóttir sálfræðingur, greinin birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 7. apríl 2014