Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Hugræn atferlismeðferð við svefnleysi er árangursríkari en svefnlyf. Að meðaltali bætir hugræn atferlismeðferð svefn hjá um 80-90% af þeim sem ganga í gegnum slíka meðferð.

Félagsfælni - „Ég held ég verði bara heima“ Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 18
LélegGóð 

Félagsfælni, er kvíði í félagslegum aðstæðum. Óþægilegt að halda uppi samræðum og tala við aðra, einkum þá sem maður þekkir lítið. Sumir fá hnút í magann við tilhugsunina eina um að athyglin beinist að þeim.

Fólk er ofur meðvitað um sjálft sig og finnur sig vanmáttugt. Athyglin er oft á líkamlegum einkennum kvíðans eins og svita og skjálfta.  Ótti um að aðrir taki eftir þeim.

Dæmigerður hugarheimur einkennist af niðurrifi; „Ég veit aldrei hvað ég á að segja“ - „Þeim finnst ég glataður“ - „Ég klúðra þessu pottþétt“ - „Ég má alls ekki... ég verð að..“

Algengt er að forðast aðstæður, eða koma sér upp einhvers konar vörnum; „Ég verð helst að hafa e-n með mér, fer ekki í party nema með vini mínum og er bara með honum. Stundum reyni ég líka að vera búin að drekka áður. Ég forðast augnsamband, reyni að gefa hinum ekki færi á að tala við mig. Ef ég gerði ekki þessar ráðstafanir færi allt í klessu.“

Félagsfælni er meira en bara feimni og getur verið mjög hamlandi;  Kvíðinn er úr hlutfalli við eðli aðstæðnanna.

Sá sem er tilbúinn að horfast í augu við vandann og leita sér hjálpar er kominn þónokkuð áleiðis.  Það er kvíðavekjandi að bíða á biðstofunni; Ekki er óalgengt að afboða eða skrópa í fyrsta viðtali - Húrra fyrir því að panta annað og mæta! Viðkomandi er nú þegar byrjaður að ögra sér og vinna með kvíðann, í stað þess að lúffa og líta undan. Hann á hrós skilið og getur óskað sér til hamingju með að vera lagður í’ann eftir batabrautinni.

Á þeirri vegferð lærum við um okkur sjálf; Hvernig vandinn þróaðist, hvert er eðli kvíðans. Við lærum að meta kvíðann og virða og skilja að hann er stundum gagnlegur.  Áttum okkur á að þetta snýst ekkert um aumingjaskap.  Tileinkum okkur aðferðir sem í raun vinna á kvíðanum, í stað skammgóðu aðferðarinnar að forðast kvíðavekjandi aðstæður; gott smá stund en verra seinna. Við lærum að vinna með hugsanir okkar, líðan, viðbrögð.

„Ég fór að taka eftir hvað ég var sjálfmiðaður; athyglin var á minni líðan, mínum einkennum og áhyggjum af því hvað öðrum finndist um mig – en var ekki eins líklegt að þeir væru með áhyggjur af því hvað ég hugsaði um þá? Nú eða bara að hugsa um eitthvað allt annað!“ „Ég fór að taka fókusinnn af sjálfum mér og ekki vera með „minnimáttarkennd“, ekki heldur „meirimáttarkennd“ (nýyrði?!), því það er jú bara „hroki“ og jafn mikil sjálfmiðun. Ég vildi bara setja mig á sama stað og hver annar. Við mannfólkið erum ólík, sumir meira þetta og aðrir meira hitt. Við erum fjölbreytileg og alls konar, en jafn gild. Ég fór að hafa meiri áhuga á öðru fólki og þora að leyfa öðrum að kynnast mér.

Í stað hugsana á borð við “ég þori ekki, get ekki” fór ég að geta sagt við mig;  “ég þori, vil og get… gott ég er byrjaður..  mér gengur betur og betur að… gaman að kynnast….”

“Hugsaðu þér að þú getir eða hugsaðu þér að þú getir ekki; Í báðum tilfellum hefur þú rétt fyrir þér” stendur einhvers staðar.

Við ráðum oft ekki aðstæðum okkar en heilmiklu um hvernig við bregðumst við þeim.

Heiðdís Sigurðardóttir, sálfræðingur

Mbl 2.feb. 2014