Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Mjög miklar líkur eru á bata þegar fólk sem þjáist af þunglyndi sækir gagnreynda sálfræðilega meðferð hjá sálfræðingi.
Erfiðleikar í námi vegna kvíða Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 4
LélegGóð 

Það fylgir því töluverð spenna og tilhlökkun að hefja nýtt nám eða byrja í nýjum skóla. Einstaklingurinn er búinn að velja og sjá fyrir sér ákveðinn farveg í sínu lífi. Fólk hefur yfirleitt einhverja hugmynd um hvernig námsmaður það er. Það þekkir styrkleika sína, veikleika og getu og oftast velur það skóla og námsleiðir út frá þeirri hugmynd. Svo hefst námið. Nýtt umhverfi, nýir skólafélagar, nýir kennarar og nýjar kröfur.

Það tekur tíma fyrir alla að aðlagast svona breytingum og því fylgir oftast einhver streita. Margir komast klakklaust í gegnum þetta tímabil og ná að aðlagast. Einhverjir lenda þó í vandræðum og ná ekki að fóta sig nógu vel. Streitan magnast og kvíðinn tekur yfir. Ef einstaklingur hefur áður í sínu námi glímt við náms- og eða prófkvíða eru meiri líkur á því að sá kvíði taki sig aftur upp.

Hvert nýtt verkefni og hvert próf fer að valda kvíða. Þeir sem þjást af prófkvíða upplifa skerta einbeitingu í prófi, erfiðleika við að skilja og fara eftir einföldum leiðbeiningum og vandkvæði við að muna mikilvæga hluti sem varða efni prófsins. Þeir standa sig því oft verr á prófum.

Þegar einstaklingur lendir ítrekað í því að standa sig verr en hann telur sig hafa getu til, er stutt í sjálfsgagnrýnina og niðurrifið. Hugsanir eins og „ég á að geta þetta“, „það er eitthvað að mér“ og „er ég kannski svona vitlaus“ eru mjög algengar. Oftast er lítið um svör eða þá að svörin verða einnig á neikvæðum nótum. Hætt er við að einstaklingurinn upplifi sig smá saman sem ekki nógu góðan námsmann og hann getur farið að upplifa úrræðaleysi og vanmátt. Þá er oft stutt í uppgjöf. Ef viðkomandi gefst upp og hættir námi kyndir það enn frekar undir þeirri upplifun að vera misheppnaður og hugmyndir um eigin getu hafa breyst umtalsvert.

Stór hluti af því sem viðheldur neikvæðum vítahring kvíðans er túlkun og mat einstaklingsins á aðstæðunum og hvernig hann bregst við þeim. Ef mikið er í húfi í huga einstaklingsins, t.d. framtíðardraumur eða sýn hans á lífið og hvernig það geti orðið, eru auknar líkur á meiri kvíða. Ef einstaklingurinn finnur ekki sjálfur leiðina út úr vítahring kvíðans og nær ekki að aðlagast nýjum og breyttum aðstæðum skiptir mjög miklu máli að fá aðstoð. Þegar kvíði er aðal orsakavaldurinn að versnandi námsárangri er mikilvægt að vinna með þann vanda og leysa kvíðahnútinn, það leysir ekki vandann að læra bara meira.

Bryndís Einarsdóttir sálfræðingur

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 4. nóvember 2013.