Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Samkvæmt rannsókn frá árinu 2003 taka 12-14% allra Íslendinga svefnlyf sem er með því mesta sem gerist í heiminum.
Því ég er frábær!! Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 3
LélegGóð 

Amma mín sagði alltaf að ég ætti að vera dugleg að hrósa mér, það væri ekkert víst að aðrir myndu gera það. Amma var ekki lærður sálfræðingur en hún vissi nú samt ýmislegt og eftir því sem ég eldist, þroskast, læri meira og öðlast meiri reynslu átta ég mig á því hversu mikil speki fólst í þessum orðum hennar.

Við ölumst upp við ákveðnar kröfur, við þurfum að vera þæg og prúð, læra að lesa, reikna, klippa o.s.frv. Það er mikilvægt að læra að haga sér innan ramma samfélagsins en við eigum mis auðvelt með að passa inn í þennan samfélagslega viðurkennda hegðunarkassa. Börnin sem passa ekki alveg heyra oft sagt um sig: „Það er svo mikil fyrirferð í henni“, „Við ráðum ekkert við hann“, „Hann getur ekki farið eftir fyrirmælum“. Því miður höfum við oft ekki mikið svigrúm fyrir fjölbreytileikann og þeir sem falla ekki alveg inn í kassann fá mjög snemma og oft í gegnum lífsleiðina þau skilaboð að vera ekki nógu góð, klár, dugleg osfrv. Þau eru einhvern veginn öðruvísi og ekki eins æskileg.

Það er manneskjunni eðlislægt að taka frekar eftir því sem staðfestir innri skoðun um það hvernig hún er og virða að vettugi merki sem hrekja þá skoðun. Ef t.d. einstaklingur með lágt sjálfsmat fær blandaða gagnrýni í vinnunni, bæði hrós og aðfinnslur, er líklegt að hann magni gagnrýnina upp með niðurrifi og festist í hugsunum um hvað hann hafi nú klúðrað miklu, það sem var jákvætt gleymist ansi fljótt. Þegar unnið er að því að styrkja sjálfsmyndina er mikilvægt að ritskoða gagnrýnisröddina, hugsa um hvernig við getum hrakið neikvæða túlkun okkar á  umhverfinu og okkur sjálfum. En það er ekki síður mikilvægt að beina sjónum okkar að því sem er jákvætt, skoða kosti okkar og hvað við erum að gera vel. Þetta hljómar auðveldara en það er því alveg eins og gagnrýnisröddin sem styrkist í gegnum bernsku okkar þá styrkist líka á sama tíma hneigð okkar til að gera lítið úr því sem við gerum vel. Það þykir ekki mannsæmandi að vera að hrósa sér hátt en það er kannski í lagi að byrja að hrósa sér í hljóði. Byrja hægt og rólega að leyfa sér að eiga það sem vel er gert.

Eitt mikilvægasta skrefið í að byggja upp sterkari sjálfsmynd er að færa athyglina frá gagnrýnisröddinni að styrkleikunum og því sem er gert vel. Prófaðu að byrja á því í dag að finna einn þátt í þínu lífi sem þú ert ánægð/ur með og leyfðu þér að hrósa þér aðeins, áhrifin gætu komið þér á óvart.

Bryndís Einarsdóttir sálfræðingur