Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Mörg verkalýðsfélög styrkja félagsmenn sína til að sækja meðferð hjá sálfræðingi.
Neikvæð viðhorf! Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 0
LélegGóð 
fimmtudagur, 06.september 2012

Hvernig við hugsum byggist að miklu leyti á lífsreynslu okkar. Í EMDR meðferð er neikvæð hugsun vísun í neikvæð viðhorf sem við höfum um okkur sjálf, umheiminn og framtíðina. Þessi viðhorf eru oft kölluð kjarnaviðhorf. Þau eru að mótast allt lífið og stjórna að miklu leyti hegðun okkar og líðan. Séu viðhorfin neikvæð, bjöguð og órökrétt verður hegðun okkar í þá veru í aðstæðum þar sem þessi viðhorf virkjast. Þegar við verðum fyrir áföllum, stórum sem smáum, verða til viðhorf sem eru skiljanleg á þeim tímapunkti sem þau verða til en eru órökrétt og valda okkur því vanlíðan. Einhver sem verður til dæmis fyrir einelti gæti haft kjarnaviðhorfið „ég er ekki nógu góð/ur“. Alltaf þegar viðkomandi er í aðstæðum þar sem hægt er að meta hann sem persónu á einhvern hátt þá líður honum illa. Viðhorfið virkjast og stjórnar því líðan viðkomandi og hegðun í líkum aðstæðum.

Við vitum sjaldnast hvaða viðhorf það eru sem stjórna okkur. Í EMDR meðferð nálgumst við viðhorfin og hugsanir sem tengjast þeim í gegnum áföll. Hvert áfall getur skilið eftir sig órökrétt kjarnaviðhorf og neikvæðar hugsanir sem gera lífið erfiðara. Fyrsta skrefið til að átta sig á hvernig þetta allt saman tengist er að skoða neikvæða hugsun sem á sér stað þegar við lendum í erfiðum aðstæðum. Það getur verið gott að rifja upp atvik sem truflaði okkur nýverið. Við þetta atvik og örugglega fleiri því líku úr fortíðinni, er hægt að tengja neikvæða hugsun.

Hugsunin er túlkun okkar á aðstæðum, hvað við sjáum, heyrum og hvernig okkur líður með sjálf okkur á þessum tímapunkti. Einhver sem verður fyrir ofbeldi gæti upplifað sig óöruggan og stjórnlausan. Það er skiljanlegt en ef þessar hugsanir og viðhorf festast í sessi gæti það orðið til þess að þannig upplifi viðkomandi sig í líkum aðstæðum. Neikvæða hugsunin er því sjaldan rökrétt og oftast vitum við að hún er ekki sönn en samt sem áður passar hún við líðan okkar.  Þess vegna teljum við stundum að við höfum unnið úr atburðum sem hafa reynst okkur erfiðir. Raunin er aftur á móti sú að við höfum einungis sagt okkur að okkur ætti ekki að líða eins og okkur líður. Það stendur oft í vegi fyrir bata. Þess vegna eigum við að skoða allar hugsanir, hversu fáránlega okkur þykir þær.

Með því að safna upplýsingum um þínar neikvæðu hugsanir er líklegt að þú farir að sjá ákveðið þema. Þemað er lykillinn að þínu kjarnaviðhorfi sem fellur líklega í eitthvað af þessum þremur flokkum.

1) Ábyrgð (Ég er ekki nógu góð/ur eða ég gerði eitthvað rangt)

2) Óöryggi (Ég get ekki treyst öðrum eða ég er ekki óhult/ur)

3) Stjórnleysi/hjálparleysi (Ég hef enga stjórn eða mér á eftir að mistakast)

Ef þú prófar að fylgjast með hugsunum þínum í aðstæðum sem eru þér erfiðar, gætir þú fundið út þín kjarnaviðhorf og þar að leiðandi hvað stjórnar þinni hegðun að einhverju leyti.

Gangi þér vel.

Aðalbjörg Heiður Björgvinsdóttir, sálfræðingur á Heilsustöðinni