Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Á hverjum tíma þjást 10-15% af fólki af langvarandi svefnleysi, eða um 30-45 þús Íslendingar.
Fiskneysla Íslendinga of lítil! Skoða sem PDF skjal Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Einkunn notenda: / 0
LélegGóð 
mánudagur, 05.desember 2011

Hér má sjá niðurstöður síðustu könnunar á vef Heilsustöðvarinnar, en þar var spurt um fiskneyslu. Í þessari könnun sögðust aðeins 34,5% borða fisk eða fiskmeti 2-3 í viku eða oftar. Hér að neðan fræðir Fríða Rún, næringarfræðingur Heilsustöðvarinnar, okkur um mikilvægi fiskneyslu.

Fiskneysla Íslendinga er almennt  allt of lítil og hefur farið hratt minnkandi undanfarin ár og áratugi, sér í lagi meðal ungs fólks. Árið 1990 var Ísland í fyrst sæti Evrópuþjóða hvað fiskneyslu varðar en á næstu 12 árum dróst neyslan saman um 30% og var orðin svipuð og meðal annarra Evrópuþjóða. Þjóðin sem áður neytti fisks jafnvel í fimm máltíðir á viku er nú komin niður í vikulega, kannski tvisvar.

Þetta er áhyggjuefni því fiskur er mjög holl fæða og er talið að fiskurinn og lýsið hafi haft afgerandi áhrif á það hversu heilsuhraust og langlíf þjóðin hefur verið í gegnum aldirnar. Samkvæmt könnunum eru það ungar stúlkur sem minnst eru spenntar fyrir fiskinum og borða sem nemur 15 g á dag en það samsvarar fiskmáltíð á 10 daga fresti. Þetta er döpur staðreynd en algengur skammtur af fiski er 150 g, en æskilegt er að borða minnst 300 g á viku en ráðleggingar um fiskneylslu sem gefnar hafa verið út af Manneldisráði Íslands og Lýðheilsustöð (Landlækni) hvetja til fiskneyslu sem nemur að minnsta kosti tvisvar til þrisvar í viku og þar af feitur fiskur vikulega. Þegar talað er um feitan fisk er það helst laxinn, lúðan og síldin en einnig eru smáfiskar eins og til að mynda makríll og sardínur flokkaðir sem feitur fiskur. Lýsið, bæði ufsa og þorska er ríkt af D-vítamíni og hollum fiskifitum þar með talið omega-3.

Þau næringarefni sem við förum á mis við ef við borðum sjaldan fisk eru joð og omega 3 en ljóst er að almennt er fæði nútímamannsins snautt af omega 3. Fiskur og sjávarfang er einnig ríkt af próteinum og seleni og því mikilvæg fæða fyrir börn og ungt fólk og frábær uppspretta auðmeltanlegra próteina t.d. fyrir íþróttafólk. Omega-3 hefur margvísleg áhrif á líkamstarfsemina. Til að mynda við að byggja upp frumuhimnur sem gerðar eru úr fitusýrum en fitusýrurnar hafa áhrif á starfsemi frumuhimnanna  ekki síst í samskiptum við aðrar frumur, þar á meðal í heilanum. Ef að nóg er af omega-3 nýtir líkaminn það meðal annars til að mynda boðefni  sem hafa jákvæð áhrif á líðan. Þetta gæti verið mikilvægt í tengslum meðferð við þunglyndi en oft mælast omega-3 gildi lág hjá þunglyndissjúklingum. Á sama tíma er omega-3 mikilvægt í framleiðslu á efnasamböndum sem stjórna blóðþrýstingi og blóðstorknun. Bólgu- og ónæmissvörun líkamans er einnig háð magni omega-3 fitusýra á þann hátt að omega-3 dregur úr bólgumyndun og hefur þannig góð áhrif á ofnæmis sjúklinga, öfugt við árhrifin sem omega-6 fitusýrur hafa. Því er ekki æskilegt að taka inn omega-6 fitusýrur þar sem nóg er af þeim í fæði nútímamannsins.

Hollusta fisksins og sjávarfangs almennt er ótvíræð og hafa rannsóknir meðal annars leitt í ljós að þeir sem borða fisk tvisvar til þrisvar í viku eiga síður á hættu að fá hjartaáfall en þeir sem borða fisk sjaldnar. Eðlilegur fósturþroski; þá aðallega heili og taugakerfi er háð því að nægjanlegt magn omega-3 fitusýra, DHA og EPA, sé til staðar á fósturskeiðinu og það er því á ábyrgð móðurinnar að neyta sjávarfangs í nægjanlegu magni alla meðgönguna. Önnur mikilvæg vítamín og steinefni sem finna má í feitum fiski og eru mikilvæg á fósturskeiðinu eru A-, D- og B12-vítamín, auk joðs og selens. Talandi um fósturþroska og meðgöngu þá eru omega-3 fitusýrur einnig mikilvægar fyrir þá eldri og kemur það aðallega inn á hjartaheilsu, með því að bæta blóðfitugildi, lækka blóðþrýsting, bæta blóðflæði og draga úr hjartsláttar óreglu. Magn omega-3 kemur einnig við sögu í tengslum við andlega líðan og jafnvel alzheimerssjúkdóminn en mælingar á sjúklingum með þann sjúkdóm hafa sýnt fram á lækkuð gildi í heilavef.

Fiskur, sjávarfang og Lýsi er því mikilvægur hluti af hollu og fjölbreyttu mataræði sem miðar að góðri heilsu frá fósturskeiði til framtíðar.