Könnun mánaðarins

Hvað af eftirfarandi hræðist þú mest?
 

Vissir þú að ...

Flestir þeir sem þjást af þunglyndi fá ekki viðeigandi meðferð, annað hvort vegna þess að þeir leita sér ekki hjálpar eða vegna þess að vandamálið er ekki meðhöndlað með réttum hætti af þeim sem leitað er til.
Meðferð persónuupplýsinga Skoða sem PDF skjal Prenta út

Heilsustöðin sálfræði- og ráðgjafaþjónusta leggur áherslu á öryggi og trúnað við öflun og meðferð persónuupplýsinga. Öllum starfsmönnum Heilsustöðvarinnar ber að gæta þagmælsku um þau atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Þagnarskylda heilbrigðisstarfsfólks hefur þó tilteknar takmarkanir sem gerð er grein fyrir hér að neðan. Án þess að þessar undantekningar frá þagnarskyldu eigi við, munum við ekki láta af hendi upplýsingar um þig til þriðja aðila nema skriflegt leyfi þitt liggi fyrir. Ef þú kýst að hafa samband við við starfsmenn Heilsustöðvarinnar með tölvupósti er vert að hafa í huga að það samskiptaform tryggir ekki að upplýsingar berist ekki til þriðja aðila. Tölvupóstur er geymdur í skrám netþjónustu þinnar og/eða Heilsustöðvarinnar. Að öllu jöfnu eru þessar skrár ekki skoðaðar en rétt er að hafa í huga að þetta samskiptaform tryggir ekki leynd.

 

Takmarkanir á trúnaðarskyldu
Takmarkanir á trúnaðarskyldu samkvæmt lögum eru tilgreindar hér að neðan. Komi upp aðstæður þar sem þessar takmarkanir eiga við, og starfsmanni ber að veita upplýsingar til þriðja aðila, verður þér tilkynnt hvaða ástæður liggja til grundvallar, hvaða upplýsingar verða látnar af hendi og til hverra þessar upplýsingar verða látnar af hendi. Í neyðartilvikum er þó oft ekki kostur á að tilkynna slíkt fyrirfram.

A. Ef starfsmaður hefur ástæðu til að ætla að yfirvofandi hætta sé á að þú skaðir þig má sálfræðingur rjúfa trúnað í þeim tilgangi að tryggja öryggi þitt eins og kostur er.

B. Ef starfsmaður hefur rökstudda ástæðu til að ætla að þú munir skaða aðra manneskju ber starfsmanni að láta af hendi upplýsingar um þá ógn sem að viðkomandi steðjar. Í tilvikum sem þessum er að öllu jöfnu um tilkynningu til þess aðila sem talinn er í hættu og lögreglu.

C. Hafi starfsmaður grun um að barn (einstaklingur undir 18 ára) búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er starfsmanni skylt að gera barnaverndarnefnd viðkomandi sveitarfélags viðvart. Hafi barnaverndarnefnd tekið ákvörðun um könnun máls getur starfsmanni verið skylt að láta í té upplýsingar um barn eða foreldra sem eiga hlut að máli.

D. Barn (einstaklingur undir 18 ára) á rétt á trúnaðarsambandi við sálfræðing. Þessi réttur takmarkast þó af tilkynningarskyldu barnaverndarlaga (samanber lið C lið hér að ofan). Réttur á trúnaðarsambandi takmarkast einnig af forsjá foreldra (eða annarra forsjáraðila) þegar kemur að alvarlegum atvikum og/eða þegar grípa þarf til formlegra athugana eða rannsókna á barni

E. Dómari getur útskurðað að heilbrigðisstarfsmaður láti af hendi persónuupplýsingar sem vitni ef slíkur vitnisburður er nauðsynlegur til varnar sakborningi. Einnig ber heilbrigðisstarfsmanni að vitna um atriði ef um er að ræða afbrot sem varða minnst tveggja ára fangelsi.